Fara í efni

Markaðsstarf vegna móttöku skemmtiferðaskipta skilar árangri

Skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn
Skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn

Reykjavík er meðal 11 borga sem tilnefndar eru í ár til verðlaunanna World Travel Awards sem besti áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip í Evrópu, "Europe''s Leading Cruise Destination". Árið 2006 varð Kaupmannahöfn fyrir valinu.

Ánægjulegt að sjá árangur
Ársæll Harðarson, forstöðumaður marðaðssviðs Ferðamálastofu, segir ánægjulegt að sjá árangur þess markaðsstarfs sem unnið hefur verið mörg undanfarin ár í markaðssetningu landsins sem áfangastaðar fyrir skemmtiferðaskip. "Faxaflóahafnir og skrifstofa Ferðamálastofu í Bandaríkjunum hafa þarna sinnt ákveðnu frumkvöðlastarfi, ásamt fyrirtækjum sem hag hafa af komum skemmtiferðaskipta hingað til lands. Fyrir nokkrum árum sameinuðu þessir aðilar krafta sína undir merkjum Cruise Iceland verkefnisins, sem vistað er hjá Ferðamálastofu, og að mínu mati erum við hér að uppskera árangur þess starfs," segir Ársæll.

Stefnir í metár
Um það bil 80 skemmtiferðaskip eru væntanleg til Reykjavíkur í sumar og áætlaður farþegafjöldi er á bilinu 60-70 þúsund.  Flest þeirra hafa viðkomu á fleiri höfnum umhverfis landið og það stefnir því í enn eitt metárið á þessum vetvangi.

Verðlaunin veitt 9. október
Borgirnar sem tilnefndar eru ásamt Reykjavík eru Amsterdam, Aþena, Cannes, Kaupmannahöfn, Dubrovnik, Lissabon, Osló, Sankti Pétursborg, Stokkhólmur og Feneyjar. Ferðaskrifstofur um allan heim velja besta áfangastaðinn ásamt aðilum úr skemmtiferðaskipageiranum. Verðlaunin verða afhent í Newcastle, Englandi, þann 9. október næstkomandi, á veðlaunahátíðinni World Travel Awards.

Mynd. Sumarnótt í Reykjavíkurhöfn