Fara í efni

Markaðsfé ferðamála til Íslandsstofu

Markaðsfé til Íslandsstofu
Markaðsfé til Íslandsstofu

Í gær undirrituðu Katrín Júlíusdóttir  iðnaðarráðherra og Friðrik Pálsson formaður stjórnar Íslandsstofu samning til fimm ára um flutning markaðsverkefna iðnaðarráðuneytis og Ferðamálastofu til Íslandsstofu.

Í frétt frá Iðnaðarráðuneytinu segir að með þessum samningi ljúki áratugalöngu og afar farsælu markaðsstarfi Ferðamálaráðs og Ferðamálastofu sem nú skilar um hálfri milljón ferðamanna hingað til lands árlega og hefur gert ferðaþjónustuna að einni af þremur mikilvægustu útflutningsgreinum þjóðarinnar.

Ferðamálastofa mun nú beina sjónum sínum alfarið að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar með verkefnum á sviði vöruþróunar, rannsókna og umhverfismála auk þess sem stofnunin fer með leyfis- og tryggingamál ferðaskrifstofa lögum samkvæmt.

Iðnaðarráðuneytið bindur miklar vonir við að enn betri árangur náist með þessu breytta fyrirkomulagi, ekki síst á sviði vetrarferðamennsku en Ferðamálastofa vinnur nú þegar að fjölbreyttum klasaverkefnum á því sviði. Þá er ekki síst tilgangurinn með þessari breytingu að ná fram umtalsverðri hagræðingu með því að beina markaðsstarfi allra útflutningsgreina í einn farveg á vegum Íslandsstofu og utanríkisþjónustunnar í góðu samstarfi við atvinnulífið í landinu.