Markaðsátakið Inspired by Iceland kynnt

Markaðsátakið Inspired by Iceland kynnt
Inspired mynd

Í dag voru kynntar áherslur markaðsátaksins Inspired by Iceland og nýtt kynningarefni sýnt í fyrsta sinn. Átakinu er ætlað að draga neikvæðum áhrifum vegna gossins, ásamt því að styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið á erlendum vettvangi.

Samráðshópur stjórnvalda og ferðaþjónustu hefur verið starfandi frá upphafi goss í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Ferðamálaráðherra hefur stýrt þessum vettvangi og innan hans kom fyrst fram hugmyndin um snarpt markaðsátak frá miðjum maí og fram í miðjan júlí 2010 til þess að vinna gegn neikvæðum áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli á ferðamannastraum til landsins.

Miðast við kynningu á landinu í heild
Markmið átaksins er að draga úr neikvæðum áhrifum á trausta markaði sem tekið hefur langan tíma að byggja upp. Átakinu er einnig ætlað að styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið á erlendum vettvangi. Stefnt er að því að birta auglýsingar um Ísland, hefja stórsókn á netinu með mikilli áherslu á samfélagsmiðla, auk kynningarviðburða og blaðamannafunda. Átakið miðast við kynningu á landinu í heild. Ferðaþjónustufyrirtæki erlendis og um land allt munu því njóta góðs af átakinu og verða hvött til þess að ýta sér þá athygli sem það hefur í för með sér.

Markaðsátakið ber heitið Inspired by Iceland. Ísland er þar í forgrunni: áherslur átaksins snúa að Íslandi í heild sinni sem ferðamannastað og öllu því góða sem það hefur upp á bjóða s.s. menningu, náttúru, mat, afþreyingu og vellíðan. Engin fyrirtæki verða sérstaklega kynnt. Sértækir viðburðir verða ekki styrktir nema í samstarfi við átakið eða kynntir undir heiti átaksins.

Allir geti lagt lóð sitt á vogarskálina
Átakið Inspired by Iceland byggir á því að allir sem hafa taugar til Íslands fái tækifæri til að leggja lóð sitt á vogarskálina, bæði Íslendingar og þeir sem hafa heimsótt landið eða dreymir um að sækja það heim. Með því að nota þau samskiptanet sem fólk hefur komið sér upp og hvetja til þess að fólk nýti þau til að koma skilaboðum um Ísland á framfæri getum við snúið vörn í sókn: nýtt þá athygli sem Ísland hefur fengið á undanförnum vikum til að kynna kraftinn í stórbrotinni náttúru okkar. Iceland is more awake than ever.

Þungi átaksins verður í maí og júní en framkvæmdanefnd áskilur sér rétt til þess að bregðast við ófyrirséðri þróun. Kynningarefni átaksins miðast við nýtingu í þessum tveimur mánuðum. Þó er horft til þess að hægt verði að nota kynningarefnið áfram þar sem um þjóðarátak er að ræða og skilaboðin samræmist þeim áherslum sem ferðaþjónustan á Íslandi hefur sett sér. Mikilvægt er að verkefnið sé sveigjanlegt og að hægt sé að bregðast hratt við ef aðstæður breytast. Leitast verður við að taka tillit til heildarstefnu og langtímahugsunar í ákvörðunartöku í verkefninu.

Efni, myndir, myndskeið o.fl. verða aðgengileg ferðaþjónustuaðilum sem vilja tengja sig átakinu, á vef okkar www.ferdamalastofa.is/inspired. Einnig verður umfang kynningarvefsins www.inspiredbyiceland.com aukið.

Samfélagsvefir verða nýttir (?InspiredbyIceland? á Facebook, Twitter, YouTube o.fl.) og þeir samþættir þeim verkefnum sem þegar eru í gangi (s.s. www.icelandwantstobeyourfriend.com, www.visiticeland.com, www.goiceland.com, www.iceland.is o.fl.)

Það er mikilvægt að allir leggi sitt lóð á vogarskálina til að koma skilaboðum um Ísland á framfæri: Ísland hefur aldrei verið jafn lifandi, nú er rétti tíminn til að heimsækja landið og upplifa. Við hvetjum alla til að fara inn á www.inspiredbyiceland.com og www.facebook.com/inspiredbyiceland til að segja söguna af því hvernig Ísland veitir innblástur.


Athugasemdir