Fara í efni

Margföldunaráhrif ferðaverðlaunanna

travelawards
travelawards

Útnefning Íslands sem "Uppáhalds Evrópulandið" heldur áfram að skila sér í auknum áhuga á landi og þjóð. Nú síðast tilkynnti Orginal Travel, sigurvegarinn í flokknum "Besti ferðabæklingurinn" að ákveðið hefði verið að bæta Íslandi inn sem áfangastað í bæklingi næsta árs.

Aukinn áhugi fjölmiðla
Bresku fjölmiðlarnir The Guardian og The Observer hafa eins og fram hefur komið staðið að veitingu þessara eftirsóttu verðlauna undanfarin 17 ár en þau byggja á áliti lesenda. "Við finnum greinilega fyrir fjölgun fyrirspurna sem rekja má beint til verðlaunanna. Sérstaklega á það við um breska markaðinn. Þeir sem fylgjast með því sem gerist í ferðageiranum vita allir af sigri Íslands. Þetta hefur t.d. haft þau áhrif að áhugi fjölmiðla á að koma til Íslands til skrifa greinar og taka upp sjónvarpsefni hefur stóraukist. Ég get nefnt sem dæmi BBC Science, CNN Traveller og MTV Networks Europe. Fjölmiðlaumfjöllunin mun síðan skila enn öflugri kynningu fyrir landið þannig að segja má að svona útnefning hafi margföldunaráhrif," segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands.