Fara í efni

Mælaborðið opnar nýja sýn á gögn í ferðaþjónustu

Jakob Rolfsson
Jakob Rolfsson

Mælaborð ferðaþjónustunnar er viðfansgefni þriðja þáttar af Ferðalausnir – stafræn tækifæri. Í Mælaborðinu eru teknar saman og birtar með myndrænum hætti margvíslegar upplýsingar um ferðaþjónustuna sem áður þurfti að sækja á marga staði. Mælaborðið opnar þar með bæði nýja sýn á fyrirliggjandi gögn og bætir aðgengi að þeim til muna.

Mælaborðið skref fyrir skref

Jakob Rolfsson, sérfræðingur hjá Ferðamálastofu, heldur utan um Mælaborðið. Í myndbandinu fer hann í gegnum Mælaborðið skref fyrir skref, sýnir hvaða gögn er þar að finna og hvernig hægt er með einföldum hætti að kalla fram mismunandi sjónarhorn á hinar ýmsu upplýsingar, allt eftir eðli gagnanna. T.d. hvernig hægt er að brjóta gögn niður á tímabil, velja eitt eða fleiri tímabil til að skoða í einu, skoða sérstaklega einstök lönd eða markaðssvæði og þannig mætti áfram telja.

Uppfært jafnharðan

Upplýsingar Mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum en eru þarna í fyrsta aðgengilegar á einum og sama stað. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast.

Mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar upplýsingar

Markmiðið með mælaborði ferðaþjónustunnar er að mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar á einum stað um vöxt og þróun þessarar stærstu atvinnugreinar landsins. Einstaklingar, fyrirtæki, fjárfestar, sveitarfélög, ríkisvaldið og fleiri aðilar hafa lengi kallað eftir slíkum gögnum til greiningar og ákvarðanatöku í ferðaþjónustunni. Til viðbótar við þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu verður hægt að fá aðgengi að undirliggjandi gögnum til frekari rannsókna.

Ferðalausnir - Stafræn tækifæri 

Sem fyrr segir er myndbandið þriðji þátturinn af hagnýtum vef-vinnustofum sem Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann mun standa fyrir á næstu mánuðum undir nafninu Ferðalausnir - Stafræn tækifæri. Markmiðið er að sýna, kynna og miðla þekkingu og reynslu til fyrirtækja í ferðaþjónustu á sviði aukinnar tækni og öflugri miðlunar. Mun nýtt efni vera frumsýnt á tveggja vikna fresti.

Þáttinn með Jakobi Rolfssyni má horfa á hér að neðan.