Fara í efni

Mælaborð ferðaþjónustunnar til Ferðamálastofu

Mælaborð ferðaþjónustunnar til Ferðamálastofu

Ferðamálastofa hefur tekið við umsjón og rekstri Mælaborðs ferðaþjónustunnar. Í því eru teknar saman og birtar með myndrænum hætti margvíslegar upplýsingar sem áður þurfti að sækja á marga staði. Mælaborðið opnar þar með bæði nýja sýn á fyrirliggjandi gögn og bætir aðgengi að þeim til muna.

Aukin áhersla á rannsóknir og tölfræði

Breytingarnar nú eru í samræmi við þá stefnumörkun ráðuneytis ferðamála að aukin áhersla verði söfnun og miðlun talnalegra upplýsinga í starfsemi Ferðamálastofu. Í tengslum við það var á dögunum auglýst eftir forstöðumanni fyrir nýtt svið hjá stofnuninni, rannsókna- og tölfræðisvið. Sem kunnugt er hefur mikið verið kallað eftir góðum upplýsingum sem gagnist öllum þeim sem koma að áætlanagerð, ákvarðanatöku og skipulagsmálum á breiðum grunni og þar er Mælaborði ferðaþjónustunnar ætlað ákveðið lykilhlutverk.

Byggt upp hjá Stjórnstöð ferðamála

Mælaborð ferðaþjónustunnar hefur verið byggt upp á vegum Stjórnstöðvar ferðamála í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Deloitte og fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Jakob Rolfsson, sem unnið hefur að uppbyggingu Mælaboðsins hjá Stjórnstöð Ferðamála, fylgir því yfir til Ferðamálastofu og er boðinn velkominn til starfa.