Fara í efni

Leiðbeiningarit um uppbyggingu tjaldsvæða

Ferðamálaráð Íslands hefur gefið út leiðbeiningarit um uppbyggingu tjaldsvæða. Því er ætlað að auðvelda þeim er hyggjast setja upp tjaldsvæði, hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli, að átta sig á hvað til þarf fyrir slíka starfsemi.

Kröfur varðandi þjónustu og aðstöðu hafa gjörbreyst
Í inngangi að ritinu segir m.a. að með auknum fjölda ferðafólks hafi spurn eftir fjölbreyttri þjónustu, afþreyingu og góðum aðbúnaði á ferðamannastöðum aukist til muna. "Það er öllum ljóst sem starfa í ferðaþjónustu að kröfur varðandi þjónustu og aðstöðu á tjaldsvæðum og sumardvalarstöðum hafa gjörbreyst á tiltölulega stuttum tíma. Gífurleg aukning er í notkun tjaldvagna og húsbíla og aukin flutningsgeta Norrænu milli Evrópu og Íslands kallar á annan og meiri búnað til að þjóna notendum tjaldsvæða," segir m.a.

Margar spurningar vakna
Jafnfram er bent á að ábyrgð þeirra sem reka og /eða hyggist setja upp tjaldsvæði sé töluverð og verði að metast út frá nokkrum meginforsendum. Þar megi nefna efnahagslegar, umhverfislegar og félagslegar forsendur. Án efa koma margar spurningar upp í hugann þegar hugað er að uppsetningu tjaldsvæðis. Hvaða lög og reglur þarf að uppfylla, hvar er best að hafa svæðið með tilliti til umhverfissjónarmiða? Hvað með öryggisþáttinn, hreinlæti, afþreyingu og fleira? Þessum spurningum og mörgum fleiri er ritinu ætlað að svara. Önnur ástæða fyrir útgáfu ritsins er að benda á möguleika á mismunandi gerðum tjaldsvæða útfrá þeirri þjónustu sem þar er í boði.

Skiptist í 7 kafla
Ritið skiptist í 7 kafla. Á eftir inngangi er fjallað um almenn leyfisákvæði, svo sem starfsleyfi, byggingarleyfi og ýmislegt sem lýtur að skipulagsferlinu. Í kafla 3 er fjallað um hreinlæti og þar tekið á vatnsbólum, salernisaðstöðu, fráveitu, þrifum og hávaða. Í Kafla 4 er umhverfismálin tekin fyrir og í kafa 5 er safnað saman ýmsum ábendingum. Þar er m.a. fjallað um staðarval, umgengnisreglur, leiksvæði, veitingasölu, gistináttaskýrslur o.fl. Þá er í 6. kafla farið yir öryggismál og loks fjallað um flokkun tjaldsvæða en Ferðamálaráð Íslands hefur gefið út flokkunarkerfi fyrir tjaldsvæði, stjörnugjöf, þar sem tjaldsvæði eru flokkuð eftir gæðum og búnaði.

Aðgengilegt á vefnum
Ritið er aðgengilegt í rafrænu formi hér á vefnum og verður einnig sent öllum sveitarfélögum og ferðamálafulltrúum. Smellið hér til að skoða ritið Pdf-skrá 0,6 MB.