Fara í efni

Leiðbeinandi reglur um öryggismál kynntar

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri kynnir reglurnar á fundi í húsnæði Slysavarnarf. Landsbjargar.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri kynnir reglurnar á fundi í húsnæði Slysavarnarf. Landsbjargar.

Ferðamálastofa hefur gefið út leiðbeinandi reglur um öryggismál fyrir ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir, þ.e. ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur.

Mæta auknum öryggiskröfum

Tilgangur reglnanna er að mæta auknum öryggiskröfum til handhafa ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfa ásamt því að einfalda rekstraraðilum leit að þeim öryggiskröfum sem gerðar eru fyrir mismunandi tegundir ferða.

Unnið í samstarfi

Reglurnar eru unnar af starfshópi sem skipaður var fulltrúum frá Ferðamálastofu, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Félagi leiðsögumanna. Verkefni hópsins var að semja reglugerð um öryggismál innan ferðaþjónustunnar í tengslum við framlagt frumvarp um breytingar á lögum um skipan ferðamála. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst að ljúka umfjöllun um frumvarpið á síðasta þingi, er ljóst að kröfur til ferðaþjónustufyrirtækja á þessu sviði munu aukast og því eru fyrirtæki eru hvött til að tileinka sér reglurnar sem fyrst.

Í hnotskurn

  • Á síðasta þingi var lagt fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005 þar sem m.a. eru lagðar til auknar öryggiskröfur á leyfishafa ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfa. 
  • Samhliða var unnið að gerð reglugerðar um öryggismál
  • Umfjöllun um málið lauk ekki á síðasta þingi en Ferðamálastofa ákvað að gefa út leiðbeinandi reglur um öryggismál.
  • Tilgangurinn er að kynna ferðaþjónustuaðilum þær auknu kröfur sem væntanlega verða gerðar til fyrirtækja á þessu sviði.
  • Reglur þessar eru unnar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru innan VAKANS, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar.
  • Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að kynna sér reglurnar og tileinka sér þær í starfsemi sinni.

Forsagan

Í júlí 2011 fól iðnaðarráðuneytið Ferðamálastofu að vinna drög að að reglugerð um leyfisveitinga skv., lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála. Reglugerðin var framhald vinnu við gerð frumvarps til breytinga á lögum um skipan ferðamála og var henni ætlað að taka á framkvæmd leyfismála, eftirliti og öryggismálum leyfishafa.

Í kjölfarið setti Ferðamálastofa á fót þriggja manna starfshóp sem í sátu Helena Þ. Karlsdóttir frá Ferðamálastofu, sem fór fyrir hópnum, Gunnar Valur Sveinsson frá SAF og Jónas Guðmundsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Í nóvember 2011 bættist Bryndís Kristjánsdóttir, fulltrúi Félags leiðsögumanna, í starfshópinn.

Í september 2012 var lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005 þar sem m.a. voru lagðar til auknar öryggiskröfur ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir. Samhliða var hafin vinna að gerð reglugerðar um öryggismál á þessu sviði.

Nýta tímann og fá fram athugasemdir

Þegar ljóst varð að frumvarpið myndi ekki ná fram að ganga á yfirstandandi þingi ákvað Ferðamálastofa að setja leiðbeinandi reglur um öryggismál sem byggðar eru grunni reglugerðarinnar. Tilgangurinn er að kynna þær auknu kröfur sem væntanlegar eru, nýta tímann þar til bindandi reglugerð verður sett til að fá athugasemdir frá greininni og sníða af þá hnökra sem upp kunna að koma.

„Þegar frumvarp til breytinga á lögunum verður samþykkt með þessum auknu öryggiskröfum til fyrirtækja, þá verður sett reglugerð um öryggiskröfur og vonumst við til að reglurnar, að tekinni afstöðu til þeirra athugasemda sem berast, verði grunnur að þeirri reglugerð. Innleiðing þeirra kann að taka tíma og ég vil hvetja ferðaþjónustuaðila til að tileinka sér þær í starfsemi sinni. Við viljum fá athugasemdir og með því að nýta tímann vel þá er ég sannfærð um að almenn sátt muni ríkja þegar reglugerðin verður að veruleika,“ segir Helena Karlsdóttir, lögfræðingur Ferðamálastofu.

Víðtækt samstarf – mörgu ábótabant

Starfshópurinn vann mikla vinnu við kortlagningu öryggismála í ferðaþjónustu og fékk starfshópurinn til sín fjölmarga fulltrúa ferðaþjónustufyrirtækja til samráðs um öryggismál í ferðaþjónustu. Fram kom að mörgum málum er ábótavant s.s:

  • Forgangsatriði var talið að huga að þekkingu og reynslu starfsmanna
  • Öryggismál eru almennt ekki í lagi
  • Það vantar upp á hæfni og þekkingu í atvinnugreininni
  • Litlar kröfur eru gerðar til ferðaþjónustuaðila
  • Mörg fyrirtæki eru ekki með öryggis- og viðbragðsáætlanir

Þekking og reynsla starfsmanna forgangsmál

Í ljósi áherslu ferðaþjónustufyrirtækjanna á mikilvægi þekkingar og reynslu starfsmanna, ákvað starfshópurinn að leggja áherslu á þau mál. Lagt er til að starfsmenn sem leiðsegja í ferðum skuli hafa ákveðna þekkingu og reynslu og hafi lokið nánar tilgreindum námskeiðum. Reglurnar taka einnig mið af kröfum nýstofnaðs Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi hvað varðar gönguferðir á skriðjöklum, gönguferðir á jöklum og erfiðu fjalllendi og skíðaferðir utan troðinna slóða. Enn fremur er lagt til að ferðaþjónustuaðilar geri öryggisáætlanir, sem fela í sér áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu.

Taka einkum til ferða á landi

Í reglunum er ferðum skipt upp í ferðir á landi, á sjó, ám og vötnum og á lofti. Af því laga- og reglugerðarumhverfi sem ferðaþjónustan býr við er ljóst að öryggis- og eftirlitsmálum er vel sinnt hvað varðar öryggi og eftirlit með ferðaþjónustuaðilum sem bjóða upp á ferðir í lofti, á sjó, ám og vötnum. Hins vegar skortir verulega á öryggisreglur varðandi þá sem bjóða upp á annars konar ferðir, þ.e. ferðir á landi. Fjalla reglurnar aðallega um ferðir á landi en varðandi ferðir á sjó, ám og vötnum og á lofti er vísað til þeirra laga og reglna sem um þess konar ferðir gilda.

Hugað að rannsóknanefnd slysa í ferðaþjónustu

Með vísan til tíðra slysa sem rekja má til slysa í ferðaþjónustu er starfshópurinn einhuga um að skoðað verði hvort og með hvaða hætti hægt verði að koma á fót rannsóknarnefnd slysa í ferðaþjónustu sambærilegri rannsóknarnefndum flug-, sjó- og umferðarslysa. Nefndin myndi hafa það hlutverk að rannsaka þau slys sem tengjast ferðaþjónustunni en heyra ekki undir aðrar rannsóknarnefndir. Fulltrúar ferðaþjónustunnar sem starfshópurinn hefur rætt við hafa lagt mikla áherslu á að slíkri nefnd verði komið á fót. Starfshópurinn mun leggja fram tillögu um hlutverk og framkvæmd slíkrar rannsóknarnefndar.

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri - olof@ferdamalastofa.is

Leiðbeinandi reglur um öryggismál ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda