Fara í efni

Launagreiðslur í ferðaþjónustu - Nýtt talnaefni í Mælaborði Ferðaþjónustunnar

Hvalaskoðun - Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson.
Hvalaskoðun - Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

Í Mælaborði Ferðaþjónustunnar má nú nálgast skýrslu sem sýnir atvinnutekjuþróun innan ákveðinna svæða í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár. Má þar meðal annars sjá meðaltekjur á hvern íbúa innan svæðanna, sem og hlutdeild tekna í ferðaþjónustu af heildartekjum í öllum atvinnugreinum. 

Mjög mismunandi tekjur milli svæða

Líkt og má sjá í skýrslunni og á myndinni til hægri, eru tekjur á hvern íbúa mjög mismunandi milli svæða. Þeim mun dekkri sem svæðin eru í kortasjánni, því hærri eru tekjurnar. Voru hæstu tekjurnar í ferðaþjónustu 2019 til að mynda rúm 1.500.000 í Skaftafellssýslunum en einungis rúm 120.000 í Fjarðabyggð. Hlutfall tekna milli kynja er einnig mismunandi eftir svæðum. Í Reykjanesbæ voru tæp 63% allra tekna í ferðaþjónustu greidd til karla, en rúm 37% til kvenna árið 2019. Á Vestjörðum fyrir sama ár voru rúm 52% allra tekna í ferðaþjónustu greidd til kvenna, en tæp 48% til karla. 

Tekjur í ferðaþjónustu aukist gífurlega síðastliðinn áratug

Tekjur í ferðaþjónustu á hvern íbúa hækkuðu um tæp 240% á landsvísu frá árunum 2012 til 2019. Minnst hækkuðu tekjurnar á Akranesi og í Hvalfirði um tæp 147% ásamt Akureyri en þar hækkuðu tekjurnar um tæp 160%. Mest hækkuðu tekjurnar í Skaftafellssýslum um tæp 458% og í Vestmannaeyjum um tæp 374%. 

Hlutdeild ferðaþjónustu hæst á Suðurlandi og Suðurnesjum

Árið 2019 voru rúm 36% allra atvinnutekna í Skaftafellssýslum í greinum ferðaþjónustunnar. Hlutfallið var rúm 33% í Reykjnanesbæ. Á landsvísu var hlutfall ferðaþjónustunnar tæp 12% árið 2019. Lægst var hlutdeild ferðaþjónustunnar í Fjarðabyggð eða 2,6% árið 2019. 

Hlutdeild ferðaþjónustu af heildaratvinnutekjum kvenna eru hærri á landsvísu en hjá körlum öll ár nema 2020. Í Skaftafellssýslum stóð ferðaþjónustan undir um 40% af öllum atvinnutekjum kvenna árið 2019. Fyrir sama svæði og ár stóð ferðaþjóunstan undir um 33% af atvinnutekjum karla. 

 Skýrsluna má nálgast með því að smella hér

Gögn skýrslunnar koma frá Byggðarstofnun og Hagstofu. Svæðaskiptingin byggist á gögnum frá Landmælingum Íslands. Skilgreiningin á hvað telst til greina ferðaþjónustunnar fæst frá Hagstofunni, og er ÍSAT flokkun notuð til að greina á milli atvinnugreina. Tekjur einstaklinga  miðast við lögheimili einstaklinga en ekki staðsetningu launagreiðanda. Tölurnar eru allar að raunvirði 2020 þar sem notast var við vísitölu neysluverðs. 

Fyrir nánari upplýsingar um efni skýrslunnar, ábendingar um efni eða efnistök má mjög gjarnan hafa samband við Arnar Dansson - arnar@ferdamalastofa.is