Fara í efni

Landsvirkjun auglýsir eftir samstarfsaðilum á sviði umhverfis- eða ferðamála

LogoLandsvirkjun
LogoLandsvirkjun

Landsvirkjun hefur auglýst eftir samstarfsaðilum til að vinna að verkefnum á sviði umhverfismála eða ferðamála. Leitað er eftir samstarfi við félagasamtök, sveitarfélög og stofnanir sem hafa hugsað sér að vinna að verkefnum af þessu tagi í sumar.

Framlag Landsvirkjunar felst í því að fyrirtækið býður fram krafta vinnuhópa ungmenna á aldrinum 16-20 ára sem starfa hjá Landsvirkjun á sumrin. Auk þess sem hóparnir sinna viðhaldi og snyrtingu í nágrenni mannvirkja Landsvirkjunar hafa þeir um árabil sinnt umhverfismálum og sköpun aðstöðu til útivistar og ferðamennsku víða um land. Í frétt frá Landsvirkjun segir að fyrirtækið vilji eiga samstarf um verkefni sem lúta að ræktun, hreinsun og öðrum umhverfisbótum ásamt t.d. stígagerð og stikun gönguleiða. "Við bjóðum fram vinnuframlag unglinganna og flokkstjórn yfir þeim. Við óskum eftir að samstarfsaðilar leggi fram vel skilgreind verkefni, efniskostnað, vinnuskipulag og stjórnun verkefnisins. Verkefni sumarsins geta verið til lengri eða skemmri tíma," segir orðrétt.

Umsóknum skal skila í síðasta lagi 28. mars nk. til Landsvirkjunar, Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík. Nánari upplýsingar veita Ragnheiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri og Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. landsvirkjun@lv.is