Fara í efni

Landshlutamiðstöð opnuð í Reykjanesbæ

UpploReykjanesbae
UpploReykjanesbae

Síðastliðinn laugardag var formlega opnuð ný upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í Reykjanesbæ. Um er að ræða eina af svokölluðum landhlutamiðstöðvum sem opnar eru allt árið og ríkið kemur að rekstrinum en Reykjanesbær annast rekstur miðstöðvarinnar í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands.

Upplýsingamiðstöð Reykjaness er til húsa í Bókasafni Reykjanesbæjar í Kjarna. Þjónustusvæði hennar er Reykjanesið og helstu verkefni eru að annast upplýsingastarf um ferðamál á svæðinu, hafa aðgengilegar allar upplýsingar um þjónustu, viðburði og svæðið sjálft, svara almennum fyrirspurnum um Reykjanesið eða vísa á rétta aðila og hafa á boðstólum bæklinga um svæðið og þá þjónustu sem þar er í boði, ásamt helstu upplýsingabæklingum fyrir landið. Þess má geta að ríkið kemur einnig að rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar í Leifsstöð sem þjónar hlutverki landamæramiðstöðvar fyrir allt landið.

Myndartexti:
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Magnús Oddsson,
ferðamálastjóri, klipptu á borða til staðfestingar því að
upplýsingamiðstöðin væri formelga opnuð. Þeim til aðstoðar voru
Hulda Björk Þorkelsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins og Stefán
Bjarkason framkvæmdastjóri. Mynd af vef Reykjanesbæjar.