Fara í efni

Landkynning í Belgíu

Mynd brussel
Mynd brussel

Á mánudaginn var efnt til Íslandskynningar í Brussel fyrir blaðamenn og söluaðila í ferðaþjónustu. Kynningin var liður í Inspired by Iceland átakinu og jafnframt er nú í fyrsta sinn í boði beint flug á milli Íslands og Belgíu.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra tók þátt í kynningunni, sem var á vegum Útflutningsráðs og Ferðamálastofu. Á fundinn mættu um 30 blaðamenn og fulltrúar ferðaheildsala í Belgíu og var farið yfir stöðu ferðamála á Íslandi. Ráðherra ræddi einnig við fjölmiðla að lokinni kynningu.

Á fundinum flutti Rikke Pedersen forstöðumaður Norræna eldfjallasetursins ítarlegt erindi um gos í Eyjafjallajökli og eldfjallarannsóknir á Íslandi. Þá gerði Davíð Jóhannsson, umdæmisstjóri Ferðamálastofu í Mið-Evrópu, grein fyrir átakinu Inspired by Iceland. Allir viðstaddir fengu ösku úr Eyjafjallajökli í gjafapakkningum.

Beint flug hafið
Ferðamönnum frá Belgíu til Íslands hefur farið fjölgandi síðustu ár og benda bókanir í beint flug Icelandair frá Brussel til Keflavíkur, sem hófst síðastliðinn laugardag, til þess að áframhald verði á þeirri þróun.

Myndir frá fundinum