Fara í efni

Lamb Inn í Vakann

Lamb inn Öngulsstöðum
Mynd: Stórfjölskyldan á Öngulsstöðum ásamt Erlu Sigurðardóttur frá Vakanum.

Lamb Inn gistihús og Lamb Inn heimagisting hljóta viðurkenningu Vakans sem 4 stjörnu gisting og jafnframt brons-umhverfismerki Vakans. Heimagisting Lamb Inn er fyrsta heimagistinga á landinu til að hljóta viðurkenningu Vakans.

Fjölskyldurekið ferðaþjónustufyrirtæki

Lamb Inn er fjölskyldurekið ferðaþjónustufyrirtæki, í eigu Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar sem fæddur er og uppalinn á Öngulsstöðum, Ragnheiðar Ólafsdóttur eiginkonu hans, Guðnýjar dóttur Jóhannesar og Karls Jónssonar eiginmanns hennar.

Íslenska lambið í forgrunni

Ferðaþjónusta hefur verið rekin á Öngulsstöðum frá árinu 1996 en þá var opnað gistihús með veitingaaðstöðu í fjósi og hlöðu sem breytt var í þeim tilgangi. Fyrstu árin var reksturinn í höndum fjölskyldunnar en var leigður út frá 2004. Árið 2012 tók Jóhannes aftur við rekstrinum og byggði upp hugmyndafræðina á bak við Lamb Inn með áherslu á veitingastaðinn og íslenska lambið. Ári síðar komu þau Karl og Guðný að rekstrinum og er Lamb Inn grundvöllur áframhaldandi búsetu stórfjölskyldunnar á Öngulsstöðum.

Áhersla á heimilislegt yfirbragð, íslenska menningu og gestrisni

Auk gistingar og veitingastaðar eru ferðaskrifstofan Lamb Inn Travel og Gamli bærinn á Öngulsstöðum rekin undir merkjum Lamb Inn. Í öllum rekstri og þjónustu er áhersla á heimilislegt yfirbragð, íslenska menningu og gestrisni eins og hún gerist best til sveita. Í Gamla bænum er rekið kaffihús á sumrin og boðið uppá kvöldverð fyrir hópa auk margvíslegrar menningartengdrar starfsemi.

Vinna áfram að Vakanum

Markmið Lamb Inn er að öll starfsemi fyrirtækisins hljóti viðurkenningu Vakans og er áformað að sú vinna verði í höfn fyrir 20 ára afmæli ferðaþjónustu á Öngulsstöðum sumarið 2016.