Fara í efni

Kortavelta ferðamanna eykst um tæpan þriðjung

Kortavelta ferðamanna eykst um tæpan þriðjung

Heildaraukning erlendrar kortaveltu hér á landi í apríl var næstum 6,7 milljarðar króna, sem er 29,1 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Hæstri upphæð var varið til gistiþjónustu eða liðlega 1,2 milljörðum. Álíka upphæð var varið í ýmsa sérhæfða ferðaþjónustu, eins og skoðunarferðir og þriðji hæsti útgjaldaflokkurinn var verslun, um 1 milljarður króna. Meðaltals kortavelta á hvern erlendan ferðamann í apríl var um 112 þús króna.

Svisslendingar skera sig nokkuð úr þegar horft er til meðalkortaveltu á hvern ferðamann. Hver Svisslendingur keypti vörur og þjónustu fyrir að jafnaði 314 þúsund krónur með greiðslukortum hér á landi í apríl. Rússar eru í öðru sæti með meðalkortaveltu á hvern ferðamann uppá 213 þúsund krónur og Spánverjar í þriðja sæti með 168 þúsund krónur.