Fara í efni

Kortavelta ferðamanna á Íslandi birt mánaðarlega

Velta erlendra greiðslukorta eftir útgjaldaflokkum og tímabilum
Velta erlendra greiðslukorta eftir útgjaldaflokkum og tímabilum

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir nú í fyrsta sinn greiðslukortaveltu íslenskra- og erlendra ferðamanna hér á landi, flokkaða eftir tegundum verslana og þjónustu. Veltutölurnar verða uppfærðar mánaðarlega.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum og ná til bæði debet- og kreditkortaveltu. Rannsóknasetrið flokkar veltutölurnar eftir útgjaldaliðum eins og gistiþjónustu, farþegaflutninga, veitingaþjónustu, bílaleigu, verslun o.fl.

Tilgangurinn með birtingu þessara gagna er fyrst og fremst sá að fyrirtæki í ferðaþjónustu og verslun geti greint þróun og breytingar í umfangi eftir tegundum. Þá munu upplýsingarnar einnig nýtast öðrum þeim sem stunda hvers konar stefnumótun í ferðaþjónustu, hvort sem eru opinberir aðilar, hagsmunasamtök eða fræðimenn.

Áætlað er að birta nýjar veltutölur um 25. hvers mánaðar sem taka þá til veltu í næstliðnum mánuði. Tölurnar eru birtar á vef Rannsóknasetursins, rsv.is.

Skipting eftir greinum

Þegar veltutölurnar sem nú eru birtar eru greindar kemur ýmislegt áhugavert í ljós:

  • Á síðasta ári nam kortavelta erlendra ferðamanna vegna kaupa í verslunum 13,7 milljörðum kr. Af þeirri upphæð var 2,7 milljörðum varið til kaupa í fataverslunum, sem er um 13% af heildarveltu íslenskra sérverslana með föt á síðasta ári. Líklegt er að aðallega sé um að ræða íslenskan útivistarfatnað.
  • Erlend kortavelta í íslenskri dagvöruverslun var um 2,3 milljarðar kr. í fyrra. Þá greiddu erlendir ferðamenn með kortum sínum í tollfrjálsri verslun, eða Fríhöfninni, fyrir um 1,4 milljarð kr. eða litlu lægri upphæð en þeirrar sem var varið til gjafa- og minjagripaverslunar, eða um 1,8 milljarð kr.
  • Stærsti liður erlendrar kortaveltu hér á landi á síðasta ári var í flokknum gistiþjónusta eða liðlega 14,4 milljarðar kr. Þá var velta ýmissar ferðaþjónustu (t.d. skipulegra skoðunarferða, pakkaferðir, veiðileyfi o.fl.) 8,7 milljarðar kr., 7,6 milljarðar til veitingahúsa og 4,3 milljarðar kr. til bílaleiga.
  • Erlend kortavelta vegna farþegaflugs nam í fyrra 3,2 milljarða kr. Þess ber þó að geta kortavelta útlendingar sem kaupa farmiða til Íslands frá heimalandi sínu fer aðeins í gegnum íslenska færsluhirða ef greitt er beint til íslensku flugfélaganna en ekki ef greitt er til erlendrar ferðaskrifstofu eða annars erlends milliliðs.

Alls staðar aukin velta

Mikill vöxtur hefur verið í erlendir kortaveltu það sem af er þessu ári. Þannig má sjá að velta bílaleiga hér á landi vegna erlendra ferðamanna hefur aukist um 77% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta vegna heimsókna á söfn og gallerí um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra og vegna tónleika og leikhúss um 38%. Verslun hefur einnig notið góðs af þessari auknu erlendu kortaveltu það sem af er ári, en hún jókst um 29% á milli ára.

Kortavelta Íslendinga

Kortavelta Íslendinga vegna ferðatengdrar þjónustu innanlands það sem af er þessu ári er svipuð veltunni í fyrra eða heldur minni. Þannig er innlend kortavelta vegna farþegaflugs 5,7% minni fyrstu fjóra mánuði þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Þannig má ætla að annað hvort ferðist landsmenn minna eða fargjöld hafi lækkað í verði.

Nánari upplýsingar veita Pálmar Þorsteinsson (palmar@bifrost.is, GSM 868 8578) og Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is, GSM 822 1203)