Fara í efni

Könnun um viðhorf farþega í hvalaskoðunarferðum

Síðastliðinn föstudag voru kynntar fyrstu niðurstöður könnunar sem gerð var hérlendis sumarið 2002 um viðhorf farþega í hvalaskoðunarferðum til hvalveiða og ýmissa þátta þeim tengdum. Skýrsla með öllum niðurstöðunum mun koma út á næsta dögum.

Um að ræða viðhorf þessa hóps ferðamanna
Rannsóknin var gerð af tveimur nemendum við háskólann á Akureyri, Daníel Guðmundssyni og Arnari Guðmundssyni. Þeir sömdu spurningalistann og fengu starfsmenn þriggja hvalaskoðunarfyrirtækja, þ.e. Norðursiglingar, Hvalstöðvarinnar og Sæferða, til að leggja hann fyrir gesti sína. Tilgangur og markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf gesta í hvalaskoðunarferðum til hvalveiða og hvalaskoðunarferða, kanna áhrif hvalveiða á þessa ferðamenn og afla upplýsinga um hvað þeim finnist skipta máli í slíkum ferðum. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um að ræða viðhorf þessa hóps ferðamanna, þ.e. þeirra sem fóru í hvalaskoðunarferð, en ekki alls almennings.

Unnið að beiðni Ferðamálaseturs Íslands.
Könnunin var sem fyrr segir gerð sumarið 2002, nánar tiltekið í júlí, en það er fyrst nú sem farið var að vinna úr niðurstöðum. Styrkur til þess fékkst frá nokkrum aðilum en Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri vann verkið að beiðni Ferðamálaseturs Íslands.

Helstu niðurstöður
Alls fengust vel á 12 hundrað svör. Meðal helstu niðurstaðna er að þeirri spurningu hvort fólk hefði komið til Íslands þótt hér væru stundaðar hvalveiðar svöruðu 75% játandi en 25% neitandi og 65% sögðust hafa farið í hvalaskoðunarferð þótt hér væru stundaðar hvalveiðar. Tveir af hverjum þremur vissu að hvalveiðibann væri í gildi og sama hlutfall taldi ekki hægt að veiða ákveðnar hvalategundir án þess að stofna þeim í hættu. Þá studdu 80% svarenda aðgerðir gegn þeim þjóðum sem veiða hvali.

Náttúran og fjöldi hvala skiptir mestu
Flestir töldu að náttúran og fjöldi hvala skipti mestu máli í hvalaskoðunarferðum, 63% tóku ákvörðun um að fara í hvalaskoðunarferð áður en þeir komu til landsins, langflestur fengu upplýsingar hjá ferðaskrifstofum eða í ferðabæklingum og 55% bókuðu beint hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu.