Fara í efni

Könnun um starfsánægju í ferðaþjónustu

Frá undirskrift samnings um verkefnið. Frá vinstri: Fríða María Ólafsdóttir, fyrirtækjaeftirlitsmaðu…
Frá undirskrift samnings um verkefnið. Frá vinstri: Fríða María Ólafsdóttir, fyrirtækjaeftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu; Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri á heilsu- og umhverfissviði Vinnueftirlitsins og Gunnþóra Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa og Vinnueftirlit ríkisins eru nú í annað sinn að fara af stað með rannsókn á starfsánægju og vinnuumhverfi í íslenskri ferðaþjónustu. Kynningarbréf hefur verið sent á þá aðila sem eru í úrtaki vegna könnunarinnar og er vonast eftir góðum viðbrögðum frá atvinnugreininni. Fyrirtækið Markaðs- og Miðlarannsóknir (MMR) sér um framkvæmdina.

Mikilvægt að taka þátt

Meginmarkmið verkefnisins er að skapa mikilvægar og áreiðanlegar upplýsingar sem nýtist bæði aðilum í ferðaþjónustu við ákvarðanatöku og markmiðssetningu í rekstri sínum, ásamt því að uppfylla opinber markmið um vöktun á skilgreindum mælikvörðum um þróun og stöðu atvinnugreinarinnar. Því er mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar bregðist vel við og taki þátt með því að svara könnuninni.

Kynningargögn væntanleg

Í kynningargögnunum sem send verða á fyrirtæki er farið fram á að yfirmaður í fyrirtækinu gefi leyfi fyrir því að aðrir starfsmenn fái könnunina senda. Þá er mælst til þes að ef viðtakandi sé ekki rétti aðilinn til að taka slíka ákvörðun þá áframsendi hann bréfið til rétts aðila ásamt því að láta vita með því að senda tölvupóst með upplýsingum um viðkomandi til fms@mmr.is.

Nýtist atvinnugreininni

Rétt er að árétta að fyrirtæki sem þess óska geta fengið greiningu á eigin niðurstöðum að uppfylltum skilyrðum um fjölda svarenda og persónuvernd. Upplýsingar um fyrirtækjagreiningar verður að finna í kynningargögnum frá MMR. Þegar niðurstöður liggja fyrir verða þær kynntar fyrir atvinnugreininni í opnum fyrirlestri sem verður streymt beint. Jafnframt verða helstu niðurstöður birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar og í aðgengilegri samantektarskýrslu sem verður öllum opin á heimasíðu Ferðamálastofu og Vinnueftirlitsins.

Fyrri niðurstöður

Niðurstöður frá 2018 eru aðgengilegar í Mælaborði ferðaþjónustunnar.