Fara í efni

Könnun um hugsanleg áhrif hvalveiða á ímynd Íslands og ferðaþjónustu í fullum gangi

BlaaLonid
BlaaLonid

Eins og komið hefur fram fól samgönguráðherra Ferðamálastofu framkvæmd könnunar á markaðssvæðum erlendis um hugsanleg áhrif hvalveiða á ímynd Íslands og ferðaþjónustu. Var þetta gert í kjölfar erindis Ferðamálaráðs. Undirbúningur af hálfu Ferðamálastofu hófst í desember og könnunin sjálf hófst í síðari hluta febrúar og er áætlað að taki allt að fjórar vikur.

Kappkostað var að vanda sem mest til könnunarinnar og er framkvæmdin í höndum alþjóðlegs sérhæfðs fyrirtækis í gerð kannana þannig að sami aðili sér um framkvæmd á öllum svæðum. Þetta tryggir bæði gæði könnunarinnar og að samræmi sé á milli markaðssvæða. Svæðin sem um ræðir eru austurströnd Bandaríkjanna, Bretland, Þýskaland, Frakkland og Svíþjóð.

Sérsniðin könnun
Könnunin er sérsniðin könnun þ.e.a.s. að ekki er um að ræða hluta af stærri könnun (spurningarvagni) og var hönnun könnunarinnar í höndum PARX. Til að fá sem marktækastar niðurstöður var tekið slembiúrtak almennings á aldrinum 16 ára og eldri og er gert ráð fyrir 1000 svörum frá hverju svæði. Um er að ræða símakönnun (CATI) og svörin slegin inn jafnóðum.

Að lokinni könnun verða niðurstöður unnar í skýrslu og gert ráð fyrir að þær verði kynntar í apríl.