Fara í efni

Keilir með brautskráning úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku

Frá útskriftinni.
Frá útskriftinni.

Föstudaginn 20. júní fór fram fyrsta brautskráning nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada. Er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem Keilir brautskráir nemendur á vegum erlends háskóla. Gífurlega góð viðbrögð hafa verið fyrir náminu, jafnt hjá einstaklingum og ferðaþjónustuaðilum, og hafa margfalt fleiri umsóknir borist í námið en á sama tíma í fyrra, segir í fétt frá Keili.

Við athöfnina fengu 13 nemendur staðfestingu á að hafa lokið átta mánaða háskólanámi í ævintýraferðamennsku. Ragnar Þór Þrastarson, verkefnastjóri námsbrautarinnar flutti ávarp, en þar kom meðal annars fram að allir nemendur hafa í kjölfar námsins fengið starf í ævintýraferðamennsku, auk þess sem nokkrir þeirra hafa fengið staðfestingu á skólavist í Thompson Rivers University við framhaldsnám í greininni. Ástvaldur Helgi Gylfason fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8,87 í meðaleinkunn og fékk hann bakpoka frá GG sjósport. Þá fékk Erlingur Geirsson viðurkenningu fyrir góðar framfarir í námi og fékk hann útivistarjakka frá Útilíf. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd ævintýraleiðsögunáms flutti Orri Sigurjónsson.

Átta mánaða leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á háskólastigi

Thompson Rivers University (TRU) í Kanada býður upp á krefjandi og sérhæft leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á háskólastigi (Adventure Sport Certificate) í samstarfi við Íþróttaakademíu Keilis. Um er að ræða átta mánaða nám sem fer alfarið fram á Íslandi og hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Nemendur öðlast alþjóðleg réttindi til starfa við ævintýraleiðsögn og hafa mikla möguleika á að vinna á fjölbreyttum starfsvettvangi víða um heim. Námið byggir að miklu leyti á verklegri kennslu í íslenskri náttúru auk fræðilegs hluta sem fer fram í Keili á Ásbrú.

TRU er einn virtasti háskóli í heimi sem býður upp á nám í ævintýraleiðsögn og útskrifast nemendur námsins með alþjóðlegt skírteini frá þeim (Adventure Sport Certificate). Allar einingar námsins eru metnar í framhaldsnám við skólann á sviði ævintýraferðamennsku, svo sem Adventure Guide Diploma, Adventure Management Diploma eða í fullt nám til BS gráðu í Adventure of Tourism Management, segir í frétt frá Keili.

Fram kemur að námið sé góður grunnur að helstu þáttum ævintýraferðamennsku. Það hentar þeim sem hyggja á starfsframa í ört vaxandi starfsgrein eða áframhaldandi háskólanám í faginu.

Nánari upplýsingar á www.adventurestudies.is