Fara í efni

Keahótel taka við rekstri Hótels Borgar

Hótel Borg við Austurvöll varð frá og með gærdeginum sjötta hótelið í keðju Keahótela ehf. Þá var skrifað undir samning þess efnis að Keahótel taki rekstur hótelsins á leigu til næstu 15 ára, að því er fram kemur í tilkynningu.

Hótel Borg er óumdeilanlega meðal þekktari hótela landsins, reist af Jóhannesi Jóhannessyni glímukappa. Hótelið stendur á tímamótum um þessar mundir en þann 25. maí næstkomandi eru 75 ár frá því hótelið sjálft var tekið í notkun, rétt í tæka tíð til að taka á móti erlendum gestum sem heimsóttu landið í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.