Kallað eftir þátttökutilkynningum á NOW 2003

Kallað eftir þátttökutilkynningum á NOW 2003
Metfjöldi ferðamanna á liðnu ári

Ferðamálaráð Íslands hefur nú kallað eftir umsóknum frá íslenskum ferðaþjónustuaðilum um þátttöku á Nordisk Overseas Workshop kaupstefnunni (NOW 2003), sem haldin verður í Reykjavík 12.-13. maí á næsta ári. Skráningarfrestur rennur út þann 19. desember og fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Hvað er NOW?
NOW-kaupstefnan er samstarfsverkefni ferðamálaráða Norðurlanda, Flugleiða og SAS. Tilgangurinn er að leiða saman ferðaþjónustuaðila (suppliers) á Norðurlöndum og ferðaskipuleggjendur (buyers) frá fjarlægum mörkuðum í Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu, með það að markmiði að stuðla að auknum ferðamannastraumi frá fjarlægum heimshornum til Norðurlandanna. Hér er því kjörið tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila til að mynda og byggja upp sambönd á þessum sterku mörkuðum.

Á undanförnum NOW-stefnum hefur fjöldi kaupenda verið á bilinu 80-120. Til stefnunnar er aðeins boðið viðurkenndum kaupendum frá sterkustu mörkuðunum og mest er lagt upp úr aðilum frá eftirtöldum ríkjum: Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Taiwan, Kína, Suður-Kóreu, Singapore og Ástralíu. Kaupendur eiga þess kost að panta viðtöl (appointments) við seljendur samkvæmt lýsingum sem seljendur munu leggja fram (Product manual). Ef ráðrúm gefst munu seljendur einnig eiga þess kost að leggja fram óskir um að hitta einstaka seljendur. Slíkt mun ráðast af fjölda kaupenda og seljenda og verður ekki ljóst fyrr en örskömmu áður en kaupstefnan hefst.

Fyrsta NOW-kaupstefnan var haldin í Danmörku 1999, árið eftir í Svíþjóð, árið 2000 í Finnlandi og sl. vor í Osló. Næsta vor lýkur umferðinni með NOW á Íslandi 12.-13. maí. Kaupstefnan verður haldin á hinu nýja ráðstefnuhóteli Icelandair Hótel Esju, sem opnað verður í vor eftir mikla stækkun og gagngerar breytingar. Ferðmálaráð Íslands hefur með höndum framkvæmd NOW í vor en undirbúningur verður í höndum Ráðstefna og funda ehf. í Kópavogi.

Umsóknarfrestur til 19. desember
Nú er kallað eftir umsóknum frá íslenskum ferðaþjónustuaðilum um þátttöku í NOW í Reykjavík. Umsóknarfrestur rennur út þann 19. desember og fjöldi þátttökufyrirtækja er takmarkaður.

Skráningareyðublað þarf að prenta út af heimasíðu NOW 2003, (sjá undir "Suppliers"), fylla það út og undirrita og símsenda (faxa) til Ferðamálaráðs Íslands (fax. 535-5501). Að því loknu munu samskipti fara beint á milli þátttökufyrirtækja og Ráðstefna og funda. Að sjálfsögðu má leita til starfsfólks Ferðamálaráðs í Reykjavík ef spurningar vakna eða vandamál koma upp.

Þátttökukostnaður
Þátttökufyrirtæki geta valið milli þriggja skráningarkosta:

  • Eitt borð, einn þátttakandi og einn viðtalalisti (appointment list). Verð: 1.900 Evrur
  • Eitt borð og tveir þátttakendur (eitt fyrirtæki og einn viðtalalisti). Verð: 2.100 Evrur
  • Eitt borð og tveir þátttakendur (eitt fyrirtæki og tveir viðtalalistar). Verð: 2.300 Evrur

Innifalið í þátttökugjaldinu er þátttaka í stefnunni (fyrirlestrar, kynningar og "workshop"), tveir hádegisverðir og tvær kvöldskemmtanir (sbr. dagskrá á heimasíðunni).

Bindandi tilkynningar
Um leið og skráning er send inn er bókun bindandi. Reikningar vegna þátttökugjalda verða sendir út í janúar 2003 og gjalddagi þeirra verður 19. febrúar. Afpantanir skulu vera skriflegar og fæst þátttökugjald endurgreitt að hálfu ef afpöntun verður fyrir 15. apríl. Eftir þann tíma fæst þátttökugjald ekki endurgreitt.

 


Athugasemdir