Fara í efni

Jón Karl kosinn formaður SAF

JonKarlOlafsson
JonKarlOlafsson

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, var kosinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sem lauk síðdegis í gær. Tekur hann við af Steini Loga Björnssyni. Með Jóni Karli í stjórn eru Anna Sverrisdóttir frá Bláa lóninu, Steingrímur Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar, Einar Bollason frá Íshestum, Hrönn Greipsdóttir frá Radisson SAS Hótel Sögu, Hörður Gunnarsson Ferðaskrifstofu Íslands og Signý Guðmundsdóttir frá Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar.

Evrópumál voru helsta umræðuefni fundarins. Fyrirlesarar voru Rauno Niinimäki, sem er fjármálaráðgjafi í finnska fjármálaráðuneytinu, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Seðlabankastjóri og Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Í ályktunum aðalfundarins er m.a. fagnað skattalækkunarhugmyndum forsætisráðherra þar sem skattar og gjöld á ferðaþjónustufyrirtæki séu almennt íþyngjandi auk þess sem svört atvinnustarfsemi skekki víða samkeppnisstöðu fyrirtækja. Er þess um leið krafist að ferðaþjónustufyrirtæki greiði almennt samkvæmt lægra þrepi virðisaukaskatts. Þá skoraði aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar á stjórnvöld að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr áhrifum hás raungengis krónunnar um þessar mundir. Loks var ítrekuð ályktun aðalfundar samtakanna árið 1999 þar sem eindregið er varað við "vanhugsuðum og lítt undirbúnum áformum um að hefja hvalveiðar að nýju við Ísland," eins og segir í ályktuninni. Hvalaskoðun sé orðin ein vinsælasta afþreying ferðamanna hér á landi og sé að skapa þjóðarbúinu verulegar tekjur og landinu afar jákvæða ímynd.