Fara í efni

Jarðböðin við Mývatn opnuð næsta vor

JardbodMyvatn1
JardbodMyvatn1

Síðastliðinn fimmtudag hófust með formlegum hætti framkvæmdir við byggingu nýs baðstaðar í Mývatnssveit. Fyrir framkvæmdunum stendur Baðfélag Mývatnssveitar ehf. sem stofnað var um verkefnið og hefur baðstaðurinn fengið heitið Jarðböðin við Mývatn.

Nýr valkostur í afþreyingu fyrir ferðamenn
Með Jarðböðunum við Mývatn er ætlunin að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn, styrkja atvinnulíf á svæðinu og opna nýja möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu, ásamt því að viðhalda aldagamalli hefð fyrir jarðböðum í Mývatnssveit. Pétur Snæbjörnsson, stjórnarformaður Baðfélags Mývatnssveitar ehf., telur að tilkoma Jarðbaðanna við Mývatn hafi almennt mjög jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. Með þeim verði til nýr valkostur í afþreyingu fyrir ferðamenn algerlega óháð veðurfarslegum forsendum. Uppbygging nýrra afþreyingarkosta yfir vetrarmánuðina hafi almennt séð reynst erfið sökum óstöðugs veðurfars en ekki verði síður spennandi að njóta jarðbaðanna í vetrarveðrum en yfir sumarmánuðina. Böðin eru staðsett við Jarðbaðshóla á jaðri háhitasvæðisins í Bjarnarflagi um 4 km. frá Mývatni.

2.000 fermetra baðlón
Í þeim áfanga framkvæmdanna sem nú er hafinn verður komið upp móttöku, verslun, baðlóni, heitum pottum fyrir börn og fullorðna, gufubaði og tilheyrandi snyrti- og búningsaðstöðu. Baðlónið verður um 2.000 fermetrar að stærð, auk öryggislóns og affallslóns, samtals um 5.300 fermetrar. Lónið er hitað með borholuvatni sem fellur til í gufuskiljum Landsvirkjunar skammt frá svæðinu. Vatnið er flutt með hjálp gufuþrýstings í lónið með niðurgrafinni lögn.

Gufubað og þjónustuhús
Móttökuaðstaða, verslun, búningsaðstaða, snyrtingar og fleiri þjónustutengdir þættir verða í um 350 fermetra húsi sem byggt verður í þessum áfanga. Almenningsgufubað verður síðan tengt þjónustuhúsnæðinu og baðlóninu og þar verður nýtt náttúrulegt streymi gufu beint upp úr sprungu. Gufuböðin verða um 40 fermetrar með köldum sturtum og handklæðageymslu en að auki 25 fermetra svæði fyrir hvíldarstofu og snyrtingar. Í heitu pottunum verður eingöngu notað hveravatn en sem kunnugt er óþarfi að nota klór við slíkar aðstæður þar sem örverur fá ekki þrifist í hveravatninu. Áætlað er að framkvæmdum við þennan fyrsta áfanga verði lokið í vor og er kostnaður áætlaður 40-60 milljónir króna. Hönnuður Jarðbaðanna við Mývatn er Halldór Gíslason, arkitekt og deildarstjóri hönnunardeildar Listaháskóla Íslands.

Sjö ára undirbúningsferli
Undirbúningur uppbyggingar jarðbaða í Mývatnssveit hófst fyrir um sjö árum. Um verkefnið var stofnað hlutafélagið Baðfélag Mývatnssveitar ehf. og eru eigendur þess um 30 talsins. Ríkisvaldið á meirihluta í félaginu en við sölu Kísiliðjunnar við Mývatn á sínum tíma ákváðu stjórnvöld að hluta söluandvirðis yrði varið til frekari atvinnuuppbyggingar við Mývatn. Aðrir kjölfestufjárfestar í verkefninu eru Kaupfélag Eyfirðinga svf. og Landsvirkjun en aðrir eigendur félagsins eru fyrirtæki og einstaklingar í Mývatnssveit og nágrenni. Að auki styður Landsvirkjun verkefnið með því að leggja til heitt skiljuvatn frá gufuveitunni í Bjarnarflagi.