Fara í efni

ITB vex ár frá ári

ITB07 8
ITB07 8

Þátttaka Íslands á ITB ferðasýningunni í Berlín tókst með miklum ágætum í ár. Auk Ferðamálastofu kynntu 18 fyrirtæki þjónustu sýna á íslenska sýningarsvæðinu og var mikil umferð alla sýningardagana. 

Sýningin er talin stærsta ferðasýning í heimi og skiptist í tvennt. Fyrri þrjá dagana er aðeins opið fyrir fagaðila en síðan fyrir almenning tvo síðustu dagana. Samkeppnin er mikil því í ár tóku þátt tæplega 11.000 sýnendur frá 184 löndum og að sjálfsögðu keppist hver og einn við að sýna sitt besta. Aðstandendur sýningarinnar fögnuðu nýju aðsóknarmeti en í ár sóttu um 109 þúsund faggestir og um 68 þúsund almennir gestrir sýninguna.  Einnig hefur þeim fjölgað verulega sem koma erlendis frá, þ.e. utan Þýskalands, og voru í ár 43% fagaðila komnir lengra að.

Viðamikill undirbúningur sýningarinnar er unninn í samstarfi markaðssviðs Ferðamálastofu og starfsfólks Ferðamálastofu í Frankfurt. Ísland var á sínum stað í höll 18, ásamt hinum Norðurlöndunum, og höfðu starfsfólk Ferðamálastofu og fulltrúar íslensku fyriritækjanna í mörg horn að líta á meðan sýningu stóð. À sunnudeginum 11. mars var svo bein útsending Deutschlandradio frá sýningarsvæði Íslandsstands í 1 ½ klukkustund, þar sem m.a. Òlafur Davíðsson, sendiherra Ìslands í Berlín, og Davíð Jóhannsson forstöðumaður Ferðamálstofu í Frankfurt, voru í viðtali. Einnig var rætt við stórsöngkonuna Arndísi Höllu Àsgeirsdóttur en tónlist af nýútkomnum diski hennar var flutt í útsendingunni.   

Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, hefur Ísland mörg undanfarin ár verið í samfloti með öllum hinum Norðurlöndunum en það heldur kostnaði niðri auk þess sem Ísland er þar af leiðandi með mun betri staðsetningu en ella væri mögulegt. Þess má geta að komin er dagsetning á ITB 2008 og verður sýningin haldin 5.-9 mars.

Skandivavian Travel Award
Samkvæmt venju voru Skandivavian Travel Award afhent í tengslum við sýninguna. Verðlaun eru veitt í tveimur flokkum, "Nýjung" og "Árangur". Þrjú íslensk verkefni voru tilnefnd að þessu sinni. Sjávarþorpið Suðureyri, Saga Trails og Pompey Norðursins og náði hið síðastnefnda á topp 10 lista fyrir "Nýjungar.

Òlafur Davíðsson, sendiherra Ìslands í Berlín, í viðtali í beinni útsendingu Deutschlandradio. Davíð Jóhannsson, forstöðumaður Ferðamálstofu í Frankfurt, í viðtali.
Rut Bobrich, viðskiptafulltrúi í íslenska sendiráðinu; Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair; Ólafur Davíðsson sendiherra; Auður Edda Jökulsdóttir sendiráðunautur og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Það var jafnan líf og fjör á íslenska sýningarsvæðinu.
Frá íslenska sýningarsvæðinu. Íslenska sýningarsvæðið.