Íslenskir fjallaleiðsögumenn í VAKANN

Íslenskir fjallaleiðsögumenn VAKINN
Frá afhendingu viðurkenningarinnar. Elías Bj. Gíslason Ferðamálastofu, Guðrún Jóhannsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Elín Sigurveig Sigurðardóttir og Einar Torfi Finnsson öll frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Áslaug Briem frá Ferðamálastofu.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru nýjustu þátttakendur í gæða- og umhverfiskerfi VAKANS. Auk gæðavottunar hlaut fyrirtækið silfurmerki í umhverfiskerfinu.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn voru stofnaðir árið 1994 af fjórum fjallaleiðsögumönnum sem vildu fyrst og fremst auka gæði og fagmennsku í leiðsögn. Markmiðið var að fara ótroðnar slóðir með innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn og þannig opna augu fólks fyrir ferðamennsku á fjöllum.

Gæða- og umhverfismál í forgrunni

Gæða- og umhverfismál hafa ávallt staðið fyrirtækinu nærri og strax frá upphafi var lögð mikil áhersla á að stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru með hugmyndafræðina um að skilja ekki eftir sig spor í náttúrunni að leiðarljósi. Þjálfun leiðsögumanna hefur verið stór þáttur í uppbyggingu fyrirtækisins. Til að mynda var nýsjálenskt þjálfunarkerfi fyrir jökla- og fjallaleiðsögumenn innleitt með góðum árangri en þjálfunarkerfið stuðlar að auknu öryggi, gæðum og þjónustu í ferðum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna.

Íslenskur ferðamarkaður einnig í VAKANN

Við sama tækifæri fékk upplýsingamiðstöðin Íslenskur ferðamarkaður (Icelandic Travel Market) viðurkenningu VAKANS en fyrirtækið er dótturfyrirtæki Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Um er að ræða fyrstu upplýsinga- og bókunarmiðstöð landsins á Reykjavíkursvæðinu sem verður þátttakandi í VAKANUM. Ferðamenn hafa leitað upplýsinga í Bankastræti 2 frá því árið 1987 og er Íslenskur ferðamarkaður því ein elsta og rótgrónasta upplýsinga- og bókunarmiðstöð Reykjavíkur. Fyrirtækið hlaut bæði merki viðurkenndrar ferðaþjónustu auk silfurmerkis í umhverfiskerfinu.

Nánar á www.vakinn.is


Athugasemdir