Fara í efni

Íslenskir fjallaleiðsögumenn fengu Kuðunginn

Elín Sigurðardóttir og Svandís Svavarsdóttir.
Elín Sigurðardóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum í gær Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. 

Íslenskir fjallaleiðsögumenn hljóta Kuðunginn fyrir að vera brautryðjendur í náttúruvænni ferðamennsku, knúnir áfram af áhuga fyrir náttúrunni og umhyggju fyrir umhverfinu. Segir meðal annars í rökstuðningi valnefndar að umhverfisvernd hafi „alltaf verið leiðarstef í allri starfsemi fyrirtækisins og krafan um sjálfbæra ferðamennsku hefur þótt sjálfsögð forsenda.“ Fyrirtækið hafi „verið leiðandi á þessu sviði og lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á mikilvægi þess að öll nýting ferðamannastaða taki mið af þolmörkum staðanna, jafnt náttúrulegum sem samfélagslegum. Brautryðjendastarf þess er öðrum til fyrirmyndar og hefur hjálpað til við að efla skilning meðal ferðaþjónustufyrirtækja á mikilvægi umhverfisvænna starfshátta á sama tíma og það hefur leitt til þess að öll umhverfisviðmið greinarinnar hafa orðið metnaðarfyllri.“

Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn hlutu, er að þessu sinni eftir listakonuna Kristínu Garðarsdóttur. Þá öðlast fyrirtækið rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.