Fara í efni

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki skrifa undir alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu

undirritun siðareglna

Ánægð að lokinni undirritun. Taleb Rifai, aðalritari UNWTO, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála oh Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

Á Ferðamálaþinginu í Hörpu í dag undirrituðu þær Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, skuldbindingu sem byggir á Alþjóðlegum siðareglum fyrir ferðaþjónustu. Reglurnar hafa nú verið þýddar á íslensku.

Hugsaðar sem grunngildi

Reglunar voru þróaðar á vettvangi Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (UNWTO) en þær byggja á ýmsum alþjóðlegum samþykktum og eru hugsaðar sem grunngildi og leiðarljós fyrir hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Siðareglurnar ná til ríkja, sveitarfélaga, samfélaga, ferðaþjónustuaðila og sérfræðinga auk ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra. 

„Alþjóðaferðamálastofnunin hefur þá trú að leiðarljósi að framlag ferðamennsku til lífs fólks og jarðarinnar okkar geti verið mikilsvert,“ segir Taleb Rifai, aðalritari UNWTO sem er viðstaddur Ferðamálaþingið. „Þessi sannfæring er kjarninn í Alþjóðlegu siðareglunum fyrir ferðaþjónustu, leiðarvísi í þróun ferðaþjónustu. Ég skora á alla að lesa siðareglurnar, koma þeim á framfæri og taka þær upp til hagsbóta fyrir ferðamenn, ferðaþjónustuaðila, samfélög gestgjafa og umhverfi þeirra á heimsvísu.“

Skuldbinding einkageirans um ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu

Árið 2011 setti UNWTO fram skjal þar sem aðilum einkageirans er gert kleift að gangast undir reglurnar og stendur fyrirtækjum, samtökum og óopinberum stofnunum til boða að undirrita skjalið. Í júní í ár höfðu 521 fyrirtæki og samtök um allan heim undirritað skuldbindinguna og nú bætist Ísland í hópinn.
„Með undirskrift okkar heitum við því að virða, koma á framfæri og innleiða þau gildi ábyrgrar og sjálfbærrar ferðaþjónustu sem siðareglurnar standa fyrir,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri en Ferðamálastofa hafði forgöngu um að þýða reglurnar á Íslensku og semja við UNWTO um notkun þeirra. „Fyrirtækin skuldbinda sig einnig til að upplýsa Alþjóðanefnd um siðareglur fyrir ferðaþjónustu um hvernig siðareglurnar eru innleiddar í stjórnskipulag þeirra.“

Siðareglurnar í heild eru aðgengilegar í íslenskri þýðingu á vef Ferðamálastofu.