Fara í efni

Íslensk ferðaþjónusta mætir öflug á ITB í Berlín

Ein stærsta ferðasýning í heimi, Internationale Tourismus-Börse (ITB), hefst í dag í Berlín og stendur þar næstu 6 daga. Sýningin hefur verið haldin árlega í á þriðja áratug. Ferðamálaráð Íslands hefur tekið þátt í henni frá upphafi og kynnt þar Ísland og íslenska ferðaþjónustu.

Fleiri íslenskir sýnendur en í fyrra
Nú í ár eru 26 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem kynna sína þjónustu á sýningunni auk Ferðamálaráðs sem skipuleggur þátttökuna. Er það talsverð fjölgun frá því í fyrra þegar 15 íslensk fyrirtæki voru meðal sýnenda. Auk fyrirtækja sem taka þátt sem sýnendur koma einnig þó nokkur fyrirtæki í viðskiptaerindum frá Íslandi. Gera má ráð fyrir að um 60 starfsmenn íslenskrar ferðaþjónustu vinni þessa daga í Berlín að því að koma okkur á framfæri í samkeppni við ferðaþjónustuaðila frá um 150 öðrum löndum. Samgönguráðherra Sturla Böðvarsson mun heimsækja sýninguna á mánudag og þriðjudag.

Skilar verulegum árangri
"Þátttaka í þessari stærstu ferðasýningu á markaðssvæðum okkar hefur skilað okkur miklu á undanförnum áratugum. Bæði hafa skapast ný viðskiptasambönd auk þess sem þarna eru einnig kynntar nýjungar í íslenskri ferðaþjónustu fyrir söluaðilum víðs vegar að úr heiminum. Að þessu sinni virðist áherslan af okkar hálfu vera mikil á afþreyingarþáttinn og að kynna Ísland sem áfangastað allt árið en í þeim þætti hefur náðst athyglisverður árangur á undanförnum árum. Það má t.d. sjá í nýjustu tölum um komu erlendra ferðamanna undanfarna mánuði en mánuðina október til febrúar hefur erlendum gestum fjölgað um 20% hér á landi miðað við sama tímabil ári fyrr. Sýningarþátttaka er einn liður í markaðsvinnu okkar, sem hefur undanfarin misseri verið með meiri þunga en áður í kjölfar stóraukinna fjármuna frá stjórnvöldum til að sinna þessum málaflokki," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.