Fara í efni

Íslensk farfuglaheimili meðal þeirra bestu

Farfuglaheimili 2008
Farfuglaheimili 2008

Í nýjasta fréttabréfi alþjóðasamtaka farfuglaheimila, Hostelling International, er kynnt niðurstaða úr viðhorfskönnun meðal gesta farfuglaheimila um allan heim. Tvö íslensk farfuglaheimili lenda þar í hópi fimm efstu.

Könnun var gerð meðal gesta sem bókað hafa gistingu á farfuglaheimilum um allan heim gegnum bókunarvél samtakanna, tímabilið janúar ? september 2008. Alls eru um 1300 farfuglaheimili bókanleg á bókunarvélinni, þar af 5 íslensk. Allir sem bóka gistingu á farfuglaheimilum gegnum bókunarvélina fá tækifæri til að gefa álit sitt á aðbúnaði og þjónustu á þeim farfuglaheimilum sem þeir gista á. 
 
Í frétt frá Farfuglum á Íslandi kemur fram að tvö íslensk farfuglaheimili eru meðal fimm efstu í könnuninni. Þetta eru Farfuglaheimilin á Berunesi við Djúpavog og Ósar á Vatnsnesi. Berunes lenti í öðru sæti með 94% skor og Ósar í 3 ? 5 sæti með 93% skor. Í efsta sæti var farfuglaheimili í Bankok í Tailandi með 95% skor. Þess má geta að Farfuglaheimilið á Ytra Lóni á Langanesi var einnig með 93% skor en komst ekki á listann þar sem of fá svör voru á bak við. 
 
Meðfylgjandi mynd er af rekstraraðilum Farfuglaheimilisins í Berunesi þeim Önnu Antoníusdóttur og Ólafi Eggertssyni. Myndin er tekin á Gestgjafamóti Farfugla fyrir stuttu, en þá var þeim hjónum veitt viðurkennig fyrir frábært starf.