Fara í efni

Íslendingar stjórna 105 milljón króna Evrópuverkefni um strandmenningu og ferðaþjónustu

Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery Program - NPP) hefur samþykkt verkefnið Northen Coastal Experience (NORCE), sem er til þriggja ára og lýkur árið 2007. Verkefnið er upp á 1,2 milljónir Evra, um 107 milljónir íslenskra króna. Hér er um að ræða strandmenningarverkefni í ferðaþjónustu sem Íslendingar áttu frumkvæði að. Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra er í forsvari fyrir verkefnið en Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar er verkefnisstjóri.

Þrír íslenskir þátttakendur
Alls eru 15 þátttakendur í verkefninu frá strandhéruðum á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Orkneyjum, Setlandseyjum og Nýfundnalandi. Þrír þátttakendur eru frá Íslandi, auk Atvinnuþróunarfélags Norðurlands vestra; Byggðasafnið á Hnjóti sem mun vinna með Breiðafjarðarsvæðið, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum með Húnaflóasvæðið og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga með ströndina frá Skjálfandaflóa að Langanesi. Á öllum þessum stöðum munu vinnuhópar stuðla að framgangi verkefnisins á svæðisvísu. Leitað verður eftir að efla samvinnu við önnur strandsvæði á Íslandi þannig að þau geti notið góðs af því tengslaneti og reynslu sem skapast.

Hægt að auka markaðssetningu á ströndinni
"Aðalmarkmið verkefnisins er að leggja grunn að eflingu ferðaþjónustu í strandhéruðum við Norður-Atlantshaf og í Botnísku víkinni og auka markaðssetningu á ströndinni sem víða er vannýtt - m.a. hér á landi, segir Rögnvaldur Guðmundsson verkefnisstjóri. Í verkefninu verður m.a. lögð áhersla á bátasmíði og kynningu á notkun báta, fugla -, sela og hvalaskoðun, kynningu á vitum og verstöðvum, verkmenningu og matarmenningu við ströndina, endurreisn gamalla ferða-og flutningsleiða, sýningahald o.fl. Allir þátttakendur vinna að eigin verkefnum á heimaslóð. Auk þess verðu lögð veruleg áhersla á sameiginlega útgáfu í formi bæklinga, uppskrifta-og matreiðslubókar, auk þess sem heimasíða verkefnisins verður starfrækt. Áhersla verður lögð á góða samvinnu við ferðaþjónustuaðila, s.s. flugfélög, ferjufyrirtæki, ferðamálaráð landanna, ferðamálasamtök og ferðaþjónustuaðila á svæðisvísu til að tryggja langtíma árangur verkefnisins. Fyrsti samráðsfundur þátttakenda í NORCE verkefninu verður haldinn á Íslandi 22.-25. júní næstkomandi.