Fara í efni

Íslendingar meira á faraldsfæti á nýliðnu ári en árið 2009

Innanlandskönnun tafla
Innanlandskönnun tafla

Svipaður fjöldi Íslendinga, eða níu af hverjum tíu, ferðaðist innanlands árið 2010 og árið 2009. Ríflega fjórðungsaukning var hins vegar í utanferðum milli ára, 56,3 % ferðuðust utan árið 2010 en árið á undan ferðuðust 44,3% utan. Þetta er meðal niðurstaðna úr nokkrum spurningum um ferðalög Íslendinga innanlands sem Ferðamálastofa fékk MMR til að leggja fyrir Íslendinga á aldrinum 18-80 ára í nýliðnum janúarmánuði.

Hvenær var ferðast innanlands og hversu lengi var dvalið?
Júlí er langvinsælasti mánuðurinn til ferðalaga innanlands en 72,9% landsmanna nýttu þann mánuð til ferðalaga. Fast á eftir fylgja ferðalög landsmanna í ágústmánuði (63,4%) og júní (54,6%). Á vor- og haustmánuðum, þ.e. í apríl, maí, september og október, ferðaðist um fimmtungur í hverjum mánuði en mun minna var ferðast aðra mánuði ársins.
Meðaldvalarlengd á ferðalögum innanlands var 14,9 nætur árið 2010. Um er að ræða sambærilega dvalarlengd og árið 2009 en þá var hún 14,3 nætur. Einn af hverjum tíu gisti eina til þrjár nætur, tveir af hverjum fimm fjórar til tíu nætur og helmingurinn ellefu nætur eða lengur.

Hvaða svæði og staðir eru heimsóttir?
Norðurland og Suðurland voru þeir landshlutar sem flestir landsmenn heimsóttu á árinu 2010 eða þrír af hverjum fimm. Tveir af hverjum fimm heimsóttu Vesturland, fjórðungur Austurland, fimmtungur Höfuðborgarsvæðið eða Vestfirði, einn af hverjum tíu hálendið og tæplega einn af hverjum tíu Reykjanesið. Til að gera sér betur grein fyrir flæði ferðamanna innan hvers landshluta voru svarendur spurðir hvort þeir hefðu heimsótt nokkra valda staði og svæði. Af þeim 45 stöðum eða svæðum sem spurt var um heimsóttu flestir Akureyri, Þingvelli/Geysi eða Gullfoss, Akranes eða Borgarnes, Egilsstaði eða Hallormsstað, Skagafjörð, Mývatnssveit, Húsavík, Hvalfjörð, Stykkishólm og Vík í Mýrdal. 

Skoða mynd í stærri útgáfu

 

Íslendingar nýta sem áður ódýra tegund gistingar í miklum mæli
Helmingur Íslendinga á ferðalagi gisti hjá vinum og ættingjum og sama hlutfall í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl. Tæplega tveir af hverjum fimm gistu í sumarhúsi eða íbúð í einkaeign og álíka margir í orlofshúsi eða íbúð í eigu félagasamtaka. Fimmtungur gisti hins vegar á hóteli, gistiheimili eða sambærilegri gistingu. Sambærilegar niðurstöður fengust um gistimáta landsmanna á ferðalögun innanlands árið 2009.

Hvaða afþreyingu greiða landsmenn fyrir?
Sund og jarðböð eru sú afþreying sem flestir landsmenn greiddu fyrir á ferðalögum árið 2010 eða tveir landsmenn af hverjum þremur. Margir (37,7%) borguðu sig inn á söfn eða sýningar, fyrir veiði (22,5%), leikhús eða tónleika (17,3%), golf (14,1%) eða bátsferð (11,2%).

Um og innan við fimm prósent nýttu sér einhverja af eftirtalinni afþreyingu; skoðunarferð með leiðsögumanni, gönguferð eða fjallgöngu með leiðsögumanni, dekur og heilsurækt, hestaferð, hvalaskoðun, flúðasiglingu eða kajakferð, vélsleða- eða snjósleðaferð og hjólaferð. Um er að ræða svipaðar niðurstöður og fyrir þá afþreyingu sem greitt var fyrir árið 2009.

Fjölbreytni í ferðaáformum Íslendinga 2011
Langflestir Íslendingar hafa einhver áform um ferðalög á árinu 2011. Þannig segjast 56,8% ætla fara í sumarbústaðaferð innanlands, 49,4% að heimsækja vini eða ættingja, 33,8% í ferð innanlands með vinahópi eða klúbbfélögum, 31,7% borgarferð erlendis, 25,2% borgar- eða bæjarferð innanlands og 24,5% útivistarferð innanlands, þ.m.t. gönguferðir, jeppa- eða snjóleðaferðir.

 

Um könnunina
Könnunin var unnin sem net- og símakönnun 11.-14. janúar. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna panel úrtaks, kvótaskiptu til samræmis við lýðfræðilega samsetningu þjóðskrár og var svarhlutfall 63,6%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 159 manna úrtaki og var svarhlutfall 57,9%. Framkvæmd og úrvinnsla voru í höndum MMR.