Fara í efni

Íslendingar á ferð og flugi

Íslendingar á ferð og flugi

Niðurstöður liggja nú fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2012 og ferðaáform þeirra á árinu 2013 sem Ferðamálastofa fékk MMR til að gera fyrr á árinu en þetta er fjórða árið í röð sem Ferðamálastofa gerir könnun sem þessa. Niðurstöður gefa til kynna að álíka margir hafi verið á faraldsfæti innanlands og utan á síðstliðnu ári og árið 2011. Færri fóru hins vegar í dagsferðir innanlands. Langflestir hafa áform um ferðalög á árinu 2013 og eru þau fjölbreytt að vanda.

Íslendingar ferðaglaðir sem áður
Um níu af hverjum tíu svarenda ferðuðust innanlands á árinu 2012 og fóru þeir að jafnaði 6,8 ferðir þar sem dvalið var a.m.k. eina nótt. Þetta er svipað hlutfall og fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt. 66,8% fóru í dagsferðir innanlands á síðastliðnu ári og fóru þeir að jafnaði átta ferðir. Um er ræða nokkuð lægra hlutfall en árið 2011 en þá sögðust 74,8% hafa farið í dagsferðir. 63,3% svarenda ferðuðust utanlands og fóru þeir að jafnaði tvær ferðir. Utanlandsferðir landans virðast því vera að ná sér á strik eftir samdrátt í kjölfar efnahagshrunsins en árið 2009 fóru 44,3% utan. 

Hvenær á árinu var ferðast innanlands
Ferðalög landsmanna eru árstíðabundin líkt og fram hefur komið í fyrri könnunum Ferðamálastofu. Júlí og ágúst voru sem áður stærstu ferðamannamánuðir ársins 2012 en 68,9% ferðuðust innanlands í júlí og 61,3% í ágúst. Júní fylgir síðan fast á eftir en um helmingur ferðaðist þá. Þróunin hefur hins vegar verið sú síðastliðin ár að þeim hefur farið hlutfallslega fækkandi sem ferðast innanlands yfir sumarmánuðina þrjá. Lítilsháttar aukningu má sjá að sama skapi í ferðalögum á tímabilinu febrúar til maí.

Um helmingur gistinátta á Suðurlandi og Norðurlandi
Ferðamenn dvöldu að jafnaði 15 nætur á ferðalögum innanlands á síðasta ári. Út frá niðurstöðum um dvalarlengd innan einstakra landshluta má ætla að 26,8% gistinátta hafi verið eytt á Suðurlandinu, 24,4% á Norðurlandinu, 14,3% á höfuðborgarsvæðinu, 12,0% á Vesturlandi, 11,1% á Austurlandi, 8,3% á Vestfjörðum, 2,0% á hálendinu og 1,0% á Reykjanesi.

Enn dregur úr ferðalögum með tjald og ferðavagna
Flestir gistu hjá vinum eða ættingjum eða 45,9%. Þar á eftir kom gisting í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl (41,3%) en samkvæmt könnunum Ferðamálastofu hefur þeim fækkað jafnt og þétt á síðustu árum sem nýta þessa tegund gistingar. Önnur gisting var ennfremur nýtt í nokkrum mæli á árinu 2012 svo sem sumarhús eða íbúðir í einkaeigu (33,5%), orlofshús eða íbúðir í eigu félagasamtaka (33,4%) og hótel, gistiheimili eða sambærileg gisting (28,4%).

Fyrir hvaða afþreyingu var greitt
Af þeirri afþreyingu sem svarendur þurftu að greiða fyrir á ferðalögum árið 2012 nýttu 72,5% sundlaugar eða jarðböð, 40,5% fóru á söfn eða sýningar og 22,2% á tónleika eða í leikhús en aldrei hafa fleiri nýtt sér þá afþreyingu sem hér er talin samkvæmt niðurstöðum úr fyrri könnunum Ferðamálastofu. Samdráttur virðist hins vegar í veiðiferðum landsmanna en mun færri fóru í veiðiferð eða 15,4% á árinu 2012 í samanburði við árin þrjú á undan. Önnur afþreying sem var nýtt í nokkrum mæli var golf (12,1%), bátsferð (12,0%) og dekur eða heilsurækt (8,8%). Náttúrutengd afþreying var sem áður nýtt af hlutfallslega fáum. Þannig fóru 5,1% í skoðunarferð með leiðsögumanni, 4,1% í gönguferð eða fjallgöngu með leiðsögumanni, 4,1% í hestaferð og 1,7% í flúðasiglingu eða kajakferð.

Hvaða landsvæði voru heimsótt
Suðurlandið var sá landshluti sem flestir heimsóttu á ferðalögum á árinu 2012 eða 63,3%, síðan kom Norðurlandið (57,6%), Vesturlandið (47,4%) og höfuðborgarsvæðið (34,0%). Þar á eftir kom Austurlandið (24,9%), Vestfirðir (22,1%), Reykjanes (14,8%) og hálendið (13,3%).

Hvaða staðir voru heimsóttir innan einstakra landshluta
Af þeim stöðum eða svæðum sem spurt var um á Suðurlandi heimsóttu flestir Þingvelli, Geysi eða Gullfoss (26,7%), Vík (15,1%) og Vestmannaeyjar (14,3%). Á Norðurlandi heimsóttu flestir Akureyri (43,1%), Skagafjörð (20,3%) og Mývatnssveit (18,2%) og á Vesturlandi, Borgarnes (27,5%), Stykkishólm (13,9%) og Hvalfjörð (12,6%).
Þeir sem ferðuðust um Austurlandið heimsóttu flestir Egilsstaði eða Hallormsstað (17,7%), Djúpavog (7,5%), Eskifjörð (7,5%) og Seyðisfjörð (7,5%), þeir sem ferðuðust um Vestfirðina heimsóttu flestir Ísafjörð (13,6%), Hólmavík eða Strandir (9,5%) og Patreksfjörð (5,6%) og þeir sem ferðuðust um Suðurnesin heimsóttu flestir Reykjanesbæ (10,1%), Grindavík (6,6%) og Reykjanesvita, brú á flekamótum eða Gunnuhver (4,3%). Af þeim sem fóru inn hálendið heimsóttu 5,0% Landmannalaugar, 4,3% Kjöl þ.m.t. Hveravelli og 2,9% fóru Sprengisand.

Dagsferðum fækkar milli ára
Þeir 66,8% svarendur sem fóru í dagsferð innanlands á árinu 2012 fóru að jafnaði átta dagsferðir en þær voru skilgreindar sem skemmtiferð, fimm klst. löng eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist væri yfir nótt. Út frá niðurstöðum um fjölda dagsferða í einstaka landshlutum má ætla að 28,2% dagsferða hafi verið farnar á Suðurlandið, 24,4% á höfuðborgarsvæðið, 14,3% á Vesturlandið, 12,4% á Norðurlandið, 8,4% á Austurlandið, 7,1% á Reykjanesið, 2,8% á Vestfirðina og 2,4% á hálendið.

Hvaða staðir voru heimsóttir í dagsferðum
Af þeim 54 stöðum eða svæðum sem spurt var um vítt og breitt um landið voru eftirfarandi tíu staðir/svæði oftast heimsótt í dagsferðum; Þingvellir, Gullfoss eða Geysir (28,0%), Borgarnes (17,1%), Eyrarbakki (16,8%), Reykjanesbær (15,1%), Grindavík (12,7%), Akureyri (12,4%), Akranes (10,5%), Vestmannaeyjar (10,4%), Hvalfjörður (10,4%) og Bláa lónið (9,3%).

Utanlandsferðir Íslendinga
63,6% sögðust hafa ferðast utan árið 2012, þar af hafði helmingur farið eina ferð, ríflega fjórðungur (28,5%) tvær ferðir og um fimmtungur (21%) þrjár ferðir eða oftar. Meðaldvalarlengd á ferðalögum í útlöndum var 15,9 nætur. Þeir sem höfðu dvalið lengur en 100 nætur voru ekki teknir með í úrvinnslu. Ferðalög Íslendinga voru að stærstum hluta bundin við N-Ameríku og Evrópu. Þannig sögðust 26,1% svarenda hafa ferðast til Bandaríkjanna eða Kanada, 23,4% til Bretlands eða Írlands, 23,2% til Spánar eða Portúgals og 23,1% til Danmerkur. 14,1% höfðu ferðast til Svíþjóðar, 13,9% til Þýskalands,10,9% til Noregs og 6,0% til Ítalíu. Þriðjungur hafði ferðast til annarra landa Evrópu og 6,2% til landa utan Evrópu og N-Ameríku . Flestir fóru í borgarferð (35,2%) erlendis, í heimsókn til vina eða ættingja (34,6%), í vinnutengda ferð (25,9%) og sólarlandaferð (24,0%).

Ferðaáform Íslendinga 2013
Níu af hverjum tíu svarendum hafa áform um ferðalög á árinu 2013 og eru þau fjölbreytt að vanda. Þannig sögðust 56,7% ætla að fara í sumarbústaðaferð innanlands, 53,3% í heimsókn til vina og ættingja, 34,9% í borgarferð erlendis, 34,0% í ferð innanlands með vinahópi eða klúbbfélögum og 26,0% í borgar- eða bæjarferð innanlands. 24,6% sögðust ætla að elta góða veðrið á Íslandi, 24,5% að fara í útivistarferð innanlands, 17,5% í sólarlandaferð, 16,0% á ráðstefnu eða vinnuferð innanlands og 14,4% í vinnuferð erlendis. Innan við 10% nefndi annars konar ferðir.

Um könnunina
Könnunin var unnin sem net og símakönnun dagana 31.janúar til 6. ferúar 2013. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-72 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1600 manna panel úrtaks, kvótaskiptu til samræmis við lýðfræðilega samsetningu þjóðskrár og var svarhlutfall 60,4%. Aldurshópurinn 73-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 97 manna úrtaki og var svarhlutfall 58,8%. Framkvæmd og úrvinnsla voru í höndum MMR.

Könnunin í heild: Ferðalög Íslendinga