Fara í efni

Íslandshótel sækja um stjörnuflokkun VAKANS

Grand Hótel
Grand Hótel Reykajvík er eitt af hótelum Íslandshótela.

Íslandshótel og Ferðamálastofa, fyrir hönd Vakans, hafa skrifað undir samning um gæðaflokkun gististaða. Íslandshótel er fjölskyldufyrirtæki sem rekur 15 hótel; Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík, auk Fosshótelanna sem staðsett eru hringinn í kringum landið.

Metnaðarfullt skref 

„Það er afar metnaðarfullt skref sem Íslandshótel taka með gerð þessa samnings. Hann felur í sér að stjörnuflokka gististaðina út frá þeim aðbúnaði og þeirri þjónustu sem fyrir hendi er á hverjum stað fyrir sig, af hlutlausum þriðja aðila," segir Alda Þrastardóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu. Einnig sækja Íslandshótel um umhverfisflokkun Vakans en eitt af markmiðum Íslandshótela er að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar eins og kostur er, eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins. Grand Hótel Reykjavík er nú þegar með Svansvottun, vottun Norræna umhverfismerkisins samkvæmt viðmiðunarreglum fyrir hótel. 

Teljum stjörnuflokkun mikilvæga í samkeppnisheimi

„Við ákváðum að sækja um í Vakanum vegna þess að við viljum fá gæðaúttekt á starfsemi okkar þar sem mismunandi þættir í rekstrinum eru skoðaðir og svo teljum við stjörnuflokkun afar mikilvæga í samkeppnisheimi," segir Davíð T. Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela. Hann bætir við að jafnframt sé þetta líka liður í þeirri samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækið vill sinna eins vel og kostur er og samræmist vel meginmarkmiðum Vakans en þau eru að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna.

Gera gott starf betra

Vakinn er afar gott og mikilvægt hjálpartæki fyrir aðila í ferðaþjónustu til að líta heildstætt á málin með það að markmiði að gera enn betur, hvort sem um er að ræða þjónustu við gesti eða innri mál fyrirtækisins. „Við lítum svo á að með gæðaviðmiðum Vakans séum við að aðstoða ferðaþjónustufyrirtækin í að gera gott starf enn betra sem verður einnig til þess að bæta Ísland sem áfangastað þar sem fagmennska og öryggi eru í fyrirrúmi.“ segir Alda.

Íslandshótel munu fara í gegnum gæðaviðmið Vakans fyrir öll sín hótel. Hótelviðmiðin eru byggð á viðmiðum frá Hotelstars Union en 15 Evrópulönd starfa samkvæmt sömu viðmiðum í dag.

Nánar:

www.vakinn.is

www.islandshotel.is