Fara í efni

Ísland, sækjum það heim! 538,7 milljónir króna til uppbyggingar ferðamannastaða á landsvísu

Uppbygging gönguleiðar og áningarstaðar við Múlagljúfur á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar
er annað tveggja verkefna sem hljóta hæstu styrkina í ár.  Mynd: Þráinn Kolbeinsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutaði í dag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2024. Að þessu sinni hljóta 29 verkefni styrk úr sjóðnum, samtals að fjárhæð 538,7 milljónir króna, og dreifast þau um land allt.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða starfar samkvæmt lögum nr. 75/2011 og er markmið sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

Í samræmi við nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030

Líkt og undanfarin ár þá snúa verkefnin sem hljóta styrk í ár að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt, m.a. á sviði öryggismála, náttúruverndar, innviðauppbyggingar o.fl. Mörg verkefnanna eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis, en þær eru unnar á forsendum heimafólks.

„Styrkirnir í ár fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er í samræmi við nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 sem ég hef lagt fyrir Alþingi og er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta, meðal annars í gegnum áfangastaðaáætlanir heimamanna. Með þessum stuðningi erum við að stuðla að betri upplifun og aðgengi ferðamanna, auknu öryggi og verndun viðkvæmrar náttúru landsins. Þetta eru lykilatrið í sjálfbærni íslenskrar ferðaþjónustu sem er leiðarljós okkar,“ segir ráðherra.

Tveir hæstu styrkirnir í ár eru að upphæð 90 milljónir króna hvor, og fara þeir annars vegar til áframhaldandi uppbyggingar við Stuðlagil á Austurlandi og hins vegar til uppbyggingar gönguleiðar og áningarstaðar á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar við Múlagljúfur á Suðurlandi. Þriðji hæsti styrkurinn, rúmar 52 milljónir króna, fer til Vestfjarða, þar sem um er að ræða uppbyggingu áningarstaðar með aðgengi fyrir alla við Kúalaug í Reykhólahreppi.

Sýnilegur árangur af starfi sjóðsins

Þótt hér hafi að framan verið tilgreind þau verkefni sem hljóta hæstu styrkina þá eru minni styrkir oft á tíðum ekki síður mikilvægir þeim sem þá hljóta og geta skipt sköpum við uppbygginu svæða og nýrra segla á sviði ferðaþjónustu.

Við Stuðlagil.

„Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur valdið straumhvörfum í uppbyggingu ferðamannastaða undanfarin ár. Frá árinu 2012 hafa yfir 900 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum fyrir samtals 7,7 milljarða króna. Er hér um skynsamlegar fjárfestingar til lengri tíma að ræða, sem treysta undirstöður ferðaþjónustunnar sem lykilatvinnugrein þegar kemur að verðmæta- og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið,“ segir ráðherra.

 

125 umsóknir í ár

Alls bárust að þessu sinni 125 umsóknir um styrki, samtals að fjárhæð rúmlega 2,9 milljarðar kr. , til verkefna að heildarfjárhæð rúmlega 4 milljarðar kr. Af innsendum umsóknum voru 31 ekki taldar uppfylla formkröfur sjóðsins eða falla utan verksviðs hans, skv. lögum nr. 75/2011. Að auki voru fjórar umsóknir dregnar til baka.

Stjórn Framkvæmdasjóðsins lagði til að alls 29 verkefni yrðu styrkt að þessu sinni, samtals að fjárhæð 538.700.000 kr. og féllst ráðherra á tillögur stjórnar og hefur Ferðamálastofu verið falið að ganga til samninga við styrkþega.

Lista yfir verkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni má finna hér að neðan. Þá er einnig hlægt að skoða úthlutanir á gagnvirkri kortasjá.

Einstaklingar / Landeigendur / Áhugamannafélög / Fyrirtæki:

  • Ferðafélagið Hörgur
    – Viðhald og varðveisla torfbæjarins að Baugaseli í Barkárdal - Kr. 4.000.000
  • Ferðafélag um safn Gísla á Uppsölum
    - Uppbygging við Safn Gísla á Uppsölum. Kr. 3.800.000
  • Fuglastígur á Norðausturlandi
    - Bætt aðgengi að fuglaskoðunarskýli á Skoruvíkurbjargi. Kr. 3.312.592
  • Hestamannafélagið Geysir
    – Merking reiðleiðar frá Dalakofa að Landmannahelli. 655.000
  • Skógræktarfélag Reykjavíkur
    - Mógilsá - Steinn, eystri leið - öryggisaðgerðir og upplýsingar - Kr. 10.213.232
  • Icebike Adventures ehf.
    - Umbætur í Ölfusdölum - Kr. 6.754.000
  • Minjasafn Bustarfelli
    - Stækkun bílastæðis, aðgengi fatlaðra og skiltagerð - Kr. 900.000
  • Sannir Reykjahlíð ehf.
    - Gengið úr leirnum II. - Kr. 30.726.383
  • Jökuldalur slf.
    - Öryggi og náttúrvernd við Stuðlagil. kr. 90.000.000
  • Lukkutangi ehf.
    - Lukkutangi-áningarstaður-selafjara við Ytri-Tungu - Kr. 14.000.000
  • Margrét Tómasdóttir
    - Uppbygging Hvalsness sem ferðamannastaðar - Kr. 5.088.000
  • Skógræktarfélag A- Skaftafells
    – Tryggja grunnþjónustu, salerni og öruggt neysluvatn, að Haukafelli, Hornafirði - Kr. 10.235.000

Sveitarfélög:

  • Akureyrarbær
    - Hrísey - greið leið um fornar slóðir. Kr. 11.000.000
  • Dalabyggð
    - Guðrúnarlaug að Laugum í Sælingsdal - viðhald og endurbætur - Kr. 2.160.000
  • Fjallabyggð
    - Fuglaskoðunarskýli á Siglufirði - Kr. 11.216.876
  • Fjarðabyggð
    – Bleiksárfoss Eskifirði hönnun - Kr. 2.460.800
  • Fjarðabyggð
    – Streitishvarf, göngustígar - Kr. 25.000.000
  • Fljótsdalshreppur
    - Hengifoss - betri stígar og verndun náttúru - Kr. 15.530.400
  • Hafnarfjarðarkaupstaður
    - Seltún - áframhaldandi uppbygging - Kr. 13.600.000
  • Hvalfjarðarsveit
    – Glymur í botni Hvalfjarðar - Kr. 11.500.000
  • Ísafjarðarbær
    – Valagil- göngustígur og áningarstaður - Kr. 22.876.667
  • Múlaþing
    – Uppbygging gönguleiðar við Eggin í Gleðivík - Kr. 28.546.000
  • Norðurþing
    - Gatanöf - Uppbygging göngustíga og bílastæða - Kr. 7.000.000
  • Reykhólahreppur
    – Uppbygging Kúalaugar (Kúatjarnar) - Kr. 52.240.050
  • Skagabyggð
    – Verndun Kálfshamars - Kr. 3.600.000
  • Sveitarfélagið Hornafjörður
    – Múlagljúfur – uppbygging gönguleiðar og áningarstaða - Kr. 90.000.000
  • Sveitarfélagið Skagaströnd
    – Spákonufellshöfði : aðgengi fyrir alla - Kr. 41.105.000
  • Vestmannaeyjabær
    – Lagfæring og bætt öryggi gönguleiðar á Heimaklett - Kr. 11.180.000
  • Þingeyjarsveit
    – Aldeyjarfoss og Hafnarbjargarfoss - Kr. 10.000.000