Fara í efni

Island ProTravel verðlaunað á ITB

Hvíldarklettur
Hvíldarklettur

Island ProTravel hlaut annað sætið þegar Golden Palm verðlaunin voru veitt á alþjóðlegu ferðakaupstefnunni ITB í Berlín í síðustu viku. Verðlaunin voru veitt fyrir sjóstangveiðiferðir til Íslands.

Í frétt frá Iceland Pro Travel kemur fram að Golden Palm verðlaunin veiti þekktasta ferðatímarit Þýskalands, GEO SAISON (kemur út í 137.000 eintökum) fyrir bestu einstöku pakkaferð sem skipulögð er af ferðaþjónustuaðila og er tekið tillit til nýsköpunar og frumleika, sem og góðs skipulags. Slíkar ferðir þurfa að uppfylla kröfu um alla hefðbundna þjónustuþætti og bjóða einstaka ferðaupplifun.

Pakkaferðin sem Island ProTravel hlaut annað sætið fyrir er ferð sem fyrirtækið hefur boðið upp á síðan árið 2006 og er samstarf Island ProTravel í Þýskalandi, Island ProTravel á Íslandi, ferðaskrifstofunnar Vögler?s Angelreisen í Þýskalandi og fyrirtækisins Hvíldarkletts á Vestfjörðum. Ferðirnar eru pakkaferðir fyrir sjóstangveiðimenn en þeir koma hingað til lands og dvelja í viku á Suðureyri eða Flateyri á Vestfjörðum við veiðar.

 Island ProTravel hefur áður hlotið verðlaun fyrir þessar ferðir en það var árið 2008, þegar það hlaut ?Scandinavian Travel Award? sem Norðurlöndin veita fyrir nýsköpun, gæði og gott aðgengi gesta.

Island ProTravel er ferðaþjónustufyrirtæki í eigu Guðmundar Kjartanssonar og Ann-Cathrin Bröcker. Þau hafa aðsetur og stýra skrifstofu fyrirtækisins í Hamborg og hafa um 20 ára reynslu í að bjóða erlendum ferðamönnum ferðir til Íslands. Auk skrifstofunnar í Hamborg er Island ProTravel með söluskrifstofur í eigin nafni í Sviss, Bretlandi, Svíþjóð og á Íslandi. Fyrirtækið sérhæfir sig í Íslandsferðum og býður upp á margskonar ferðir til landsins: ferðir þar sem gestir keyra sjálfir um landið, rútuferðir, hestaferðir, gönguferðir, fuglaskoðunarferðir, sérhópa- og hvataferðir, borgarferðir, fjölskylduferðir, kvennaferðir, sjóstangveiðiferðir, yoga-ferðir, golf-ferðir og margt, margt fleira. Skrifstofa fyrirtækisins á Íslandi er í Ármúla 15 og henni stýrir Sjöfn Kjartansdóttir.