Fara í efni

Ísland nær aftur frábærum árangri við afhendingu ferðaverðlauna The Guardian/Observer

Upplifun og afþreying - Ráðstefna um uppbyggingu og þróun á sviði skapandi greina
Upplifun og afþreying - Ráðstefna um uppbyggingu og þróun á sviði skapandi greina

Síðastliðinn þriðjudag var tilkynnt um útslit í árlegum ferðaverðlaunum bresku fjölmiðlana The Guardian/Observer fyrir árið 2004. Eins og margir eflaust muna var Ísland valið "Uppáhalds Evrópulandið" við afhendingu verðlaunanna í fyrra og árangurinn í ár er einnig glæsilegur.

Eftirsótt og virt verðlaun
Veitt eru verðlaun í nokkrum flokkum og byggja á niðurstöðum könnunar sem fjölmiðlarnir gera árlega á meðal lesenda sinna. Eftirsótt er að vinna til verðlaunanna og þau eru hátt skrifuð þar sem byggt er á svörum frá breskum almenningi, fólki sem farið hefur til viðkomandi landa og nýtt sér þá þjónustu sem spurt er um í könnuninni.

Uppáhalds Evrópulandið
Að þessu sinni hefur Ísland sætaskipti frá fyrra ári við Slóveníu í flokknum "Uppáhalds Evrópulandið", þ.e. Ísland er í 2. sæti í ár en Slóvenía í því fyrsta. Í næstu tveimur sætum eru sömu lönd og í fyrra, Finnland og Noregur.

Reykjavík og Icelandair einnig ofarlega
En með þessu er ekki öll sagan sögð því Ísland kemst einnig ofarlega í tveimur öðrum flokkum. Þannig hækkaði Reykjavík sig úr 35. sæti í það 12. í flokknum "Uppáhalds borgin erlendis" og Icelandair kemur sterkt inn í 14. sæti í flokknum "Besta flugfélagið á styttri leiðum".

Léttir undir í markaðsstarfinu
Í kjölfar verðlaunanna í fyrra, og góðan árangur Íslands þá, varð starfsfólk Ferðamálaráðs vart við verulega aukinn áhuga á landinu og fjölgun fyrirspurna sem tengja má beint við verðlaunin. Sérstaklega á það við um fjölmiðla sem fjalla um ferðamál. Búast má við að svipað verði upp á teningnum nú. Þannig eru verðlaunin kærkomin viðbót og aðstoð í því viðamikla markaðs- og landkynningarstarfi sem Ferðamálaráð og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki standa fyrir erlendis.

Heildarniðurstöðurnar má nálgast með því að smella hér.