Fara í efni

Ísland meðal eftirsóknarverðustu eyja

Goðafoss
Goðafoss

Ísland er í hópi 14 eyja sem komast í efsta flokk ferðablaðs National Geographic yfir eftirsóknarverðustu eyjarnar til að heimsækja. Ísland er í sæti 7-9 ásamt Kengúrueyju við suðurströnd Ástralíu og Mackinac í Michigan í Bandaríkjunum. Í efsta sæti sitja frændur okkar í Færeyjum.

Fjórða árið í röð tók blaðið fyrir 111 eyjar og fékk 522 sérfræðinga á sviði sjálfbærrar ferðamennsku til að meta þær. Verið er að horfa til þeirra miklu breytinga á náttúru og þjóðfélagsgerð hafa víða fylgt ferðaþjónustu og hætta sé á að spilla stöðum með of miklum ágangi nema gripið sé til viðeigandi ráðstafana. Það eru m.a. aðgerðir svæða og landa til að gera ferðaþjónustu að eðlilegum hluta samfélagsins, án þess að spilla því sem fyrr er, sem verið er að meta.

Ísland kemst í flokkinn ?Best Rated Islands? með þá umsögn að hér séu hlutir almennt í góðu standi, landið sé tiltölulega óspillt og líklegt til að verða svo áfram. Náttúra landsins og menning fær góða umsögn, fólk sé meðvitað um umhverfi sitt og hér séu fjölbreyttir ferðamöguleikar fyrir hendi. Aukin stóriðja er á hinn bóginn nefnd sem áhættuþáttur en almennt leitist Íslendingar við að vernda umhverfi sitt og þjóðfélag og tryggi hagnað af ferðaþjónustu án þess að valda skaða.