Fara í efni

Ísland má vel við una í evrópskum samanburði

Ferðamálaráð Evrópu (ETC) var að birta ársfjórðungsskýrslu sína, þá 3. árinu, um stöðu og horfur í ferðamálum álfunnar. Sérstaklega er horft til árangursins í sumar og hvaða áhrif hann gæti haft á síðustu mánuði ársins. Margt áhugavert má finna í skýrslunni og ljóst að Ísland má nokkuð vel við una.

Haldið uppi af Bandaríkjamönnum og ferðalögum innan álfunnar

Í kjölfar góðra sumarmánaða var ferðamannastraumurinn fyrir tímabilið janúar-september heildina litið 3,2% undir því sem hann var árið 2019, þ.e. fyrir Covid. Gistinætur voru aðeins 1,3% undir 2019 tölum. Batann segir ETC einkum vera knúinn áfram af ferðalögum milli Evrópulanda og straumi bandarískra ferðamanna sem njóta góðs af hagstæðu gengi.

Ójafnt á milli landa

Hins vegar en ekki er allt sem sýnist því árangurinn dreifist mjög ójafnt á milli landa. Þannig eru 65% áfangastaða enn undir 2019 tölunum á meðan nokkrir áfangastaðir sýna verulega aukningu.

Batinn var að mestu knúinn áfram af áfangastöðum í Suður-Evrópu og við Miðjarðarhafið, einkum Serbíu (+15%), Svartfjallalandi (+14%), Portúgal (+11%), Tyrklandi (+8%), Möltu og Grikklandi (bæði +7% ). Hægari bati er sérstaklega áberandi meðal Austur-Evrópuríkja nágranna Rússlands og Úkraínu, og þeirra sem venjulega eru háð rússneskum ferðamönnum. Eystrasaltslöndin eru með mestan samdrátt: Eistland (-27%), Lettland (-30%) og Litháen (-33%).

Ísland á góðu skriði

Líkt og fram hefur komið þá fóru um 1,7 milljón erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll á tímabilinu janúar-september 2023, eða tæplega 165 þúsund fleiri en á sama tímabili 2019, sem er um 10% fjölgun. Þá hafa brottfarir í október aldrei mælst fleiri en í ár, líkt og fram kom í tölum Ferðamálastofu fyrir helgi. Gistinætur samkvæmt tölum Hagstofunnar voru í lok september komnar í 8,2 milljónir frá áramótum en voru 6,8 milljónir á sama tímabili 2019. Því er ljóst að Ísland má vel við una í evrópskum samanburði.

Fullu bati á næsta ári

ETC býst við að næsta ár, þ.e. 2024, verði á pari við 2019 og það þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður séu heldur óhagstæðar. Má þar nefna viðvarandi verðbólgu, stríðið í Úkraínu, ófriðinn í Ísrael o.fl.

Skýrslan í heild