Ísland leiðir góðan vöxt í ferðaþjónustu Evrópu

Ný ársfjórðungsskýrsla Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) sýnir að vöxtur í ferðaþjónustu er hvergi meiri en á Íslandi það sem af er ári. 

Styttri ferðir

Almennt séð á raunar greinin góðu gengi að fagna í álfunni og flest lönd eru að njóta fjölgunar í komum ferðamanna miðað við fyrri ár. Þar er Ísland örugglega í fyrsta sæti með rúmlega 19% fjölgun. Slóvakía fylgir þar á eftir með um 16% og Seríba og Lettland með rúmlega 10%. Gistinóttum er ekki að fjölda í sama hlutfalli og ferðamönnum sem bendir til þess að ferðamenn dvelji skemur í hverri ferð.

Kína og Rússland vaxandi

Önnur Evrópulönd eru sem fyrr mikilvægasti markaðurinn þegar horft er til þess hvaðan ferðamenn eru að koma og eru Bretar, Frakkar og Þjóðverjar þar efstir a blaði. Af fjærmörkuðum eru Bandaríkin sem fyrr öflug, þótt heldur hafi hægst á vexti þaðan. Ferðafólki frá Rússlandi heldur hins vegar áfram að fjölga verulega og er mikilvægi Rússlandsmarkaðar stöðugt að aukast. Hlutfallslega er hins vegar hraðastur vöxtur í komum Kínverja til Evrópu.

Áhyggjur af skattheimtu

Þegar á heildina er litið er ferðaþjónusta sú atvinnugrein sem er að standa sig hvað best í álfunni. Í skýrslu ETC er í því sambandi vikið að áhyggjum af því að það geti leitt til vaxandi áhuga stjórnvalda á að ná inn auknum skatttekjum af greininni, sem á móti mundi leiða til minnkandi eftirspurnar og samdráttar.

Skýrsla ETC í heild


Athugasemdir