Fara í efni

Ísland kynnt sem áfangastaður fyrir kínverska ferðamenn

andlitmedfana
andlitmedfana

Í nýútkomnu vefriti viðskiptastofu utanríkisráðuneytisins kemur fram að sendiráð Íslands í Peking hefur, í samstarfi við aðila á borð við Flugleiðir og Ferðamálaráð Íslands, hafið markvissa kynningu á Íslandi sem áfangastað fyrir kínverska ferðamenn. Forsenda kynningarinnar er væntanlegur samningur milli Íslands og Kína um ferðamál (svonefndur ADS-samningur "Approved Destination Status") sem verður undirritaður á næstu vikum. Samningurinn gerir Kínverjum kleift að ferðast til Íslands í skipulögðum hópum.

Ferðamálakynning formlega hafin
Vikuna 23.-27. febrúar síðastliðinn tóku Magnús Bjarnason, sendiráðinu í Kína, og Steinn Lárusson, fulltrúi Flugleiða, þátt í samnorrænni ferðamálakynningu í Peking, Sjanghæ og Guangzhou. Á kynningunni voru Norðurlöndin kynnt sem ákjósanlegir áfangastaðir fyrir vaxandi fjölda Kínverja sem kýs að ferðast utanlands. Ferðamálakynningin var fyrsta formlega kynningin á Íslandi innan ferðaþjónustunnar í Kína.

Fleiri Kínverjar ferðast til útlanda
Kínverskir ferðamenn í utanlandsferðum eru enn mjög fáir miðað við íbúafjölda. Á síðasta ári voru kínverskir ferðamenn, sem ferðast utanlands, undir einu prósenti af fólksfjölda í Kína. Búist er við að það breytist í ár þegar kínverskir ferðamanna erlendis verða fleiri en 20milljónir. Mikilvægt er þó að líta til þess að ferðamannastraumur frá Kína eykst stöðugt ár frá ári og er sá vöxtur talinn vera á bilinu 15-25%.Vöxturinn helst í hendur við stækkandi miðstétt og bættan efnahagalmennings í Kína. Þannig hefur kínverskum ferðamönnum fjölgað úr 9,1milljón á árinu 1999 í 15,8 milljónir á árinu 2002.

Fleiri Kínverjar ferðast til Norðurlandanna
Á síðasta ári er talið að um 70 þúsund Kínverjar hafi ferðast til Norðurlandanna, þar af á bilinu 1-2 þúsund til Íslands. Gert er ráð fyrir að þessi tala muni hækka á næstu árum og að Ísland geti m.a. orðið hluti af skipulögðum ferðalögum Kínverja um Norðurlöndin. Nokkrar ferðaskrifstofur í Kína hafa hafið sölu á ferðum til Íslands.

Talsvert eyðslufé kínverskra ferðamanna
Í nokkrum þeirra landa, sem hafa undirritað ADS-samning við Kína, eyða kínverskir ferðamenn að jafnaði 216 þús. ISK hver samkvæmt tölum sem Asia Pacific Bulletin birtir. Ein ástæða mikillar eyðslu kínverskra ferðamanna er sú að utanlandsferðir eru mikill munaður í Kína og þegar snúið er aftur heim er til siðs að færa fjölskyldu, vinum og starfsfélögum gjafir. Nýlega voru gerðar breytingar á löggjöf sem kveður á um hversu mikla peninga kínverskir ferðamenn geta tekið með sér til útlanda. Þeim er nú heimilt að taka með sér allt að 20 þús. RMB (173 þús. ISK) í stað 6 þús.RMB áður (52 þús. ISK). Hversu vel gengur að framfylgja þessum reglum er hins vegar annað mál eins og tölur um meiri eyðslu gefa til kynna.

Kynningarefni um Ísland á kínversku
Sendiráð Íslands í Peking hefur látið prenta kynningarefni um Ísland á kínversku og opnar á næstunni vefsíðu með upplýsingum um Ísland fyrir kínverska ferðamenn.