Fara í efni

Ísland kynnt í Osló sem ráðstefnuland

Ráðstefnuskrifstofan - kynning í Osló.
Ráðstefnuskrifstofan - kynning í Osló.

Síðastliðinn fimmtudag stóð Ráðstefnuskrifstofa Íslands, í samvinnu við Ferðamálastofu, Icelandair og Sendiráð Íslands í Osló, fyrir Íslandskynningu í sendiráðsbústaðnum í borginni. Kynningin var vel heppnuð en megintilgangur hennar var að kynna Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Sambærilegar kynningar hafa á síðustu vikum og mánuðum verið haldnar í London, Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólmi.

Auk Ráðstefnuskrifstofunnar, Ferðamálastofu og Icelandair tóku nokkur aðildarfyrirtæki Ráðstefnuskrifstofunnar þátt í kynningunni í Osló. Þetta voru Höfuðborgarstofa, Bláa Lónið, Highlanders, Practical, Iceland Incoming, Iceland Travel, Icelandair Hotels, Radisson SAS og Islandsfundir.

Lisbeth Jensen, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn, stjórnaði kynningunni sem hófst með ávarpi Stefáns Skjaldarsonar sendiherra. Þá voru Dóra Magnúsdóttir og María Reynisdóttir með kynningu á Reykjavíkurborg og tilvonandi ráðstefnu- og tónlistarhúsi. Anna R. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofunnar, kynnti að því loknu Ísland sem áfangastað fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Jan Fredrik  sölustjóri Icelandair í Osló kynnti þjónustu fyrirtækisins og einnig var kynning á öðrum fyrirtækjum sem tóku þátt. Að lokum var íslenskur veislumatur í boði fyrir viðstadda, en maturinn var framreiddur af veitingamönnum frá Sjávarkjallaranum.

Vaxandi markaðssetning á Íslandi sem ráðstefnu- og hvataferðaland
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, segir kynninguna hafa tekist vel í alla staði. “Kynningarnar í sendiráðunum undanfarna mánuði marka upphafið að vaxandi markaðssetningu á Íslandi sem ráðstefnu- og hvataferðalandi með tilkomu ráðstefnu og tónlistarhússins. Ferðamálastofa vinnur markvisst á öllum mörkuðum að þessari markaðssetningu, ýmist frá skrifstofum Ferðamálastofu erlendis, eða í samstarfi við aðra, eins og Höfuðborgarstofu, Ráðstefnuskrifstofu Íslands og sendiráðin erlendis,” segir Ársæll.