Fara í efni

Ísland eitt vinsælasta leitarorð Breta á Netinu

Breska blaðið Daily Mirror birti á dögunum lista yfir 100 vinsælustu orðin eða leitarstrengina sem Bretar leituðu eftir á Netinu á nýliðnu ári. Þar er Ísland (Iceland) í 69. sæti og aðeins fimm lönd eru ofar á listanum.

Af einstökum löndum eru það aðeins Kýpur (24. sæti), Spánn (44. sæti), Frakkland (48. sæti), Ástralía (56. sæti) og Malta (64. sæti) sem eru ofar á listanum og einnig má finna þar stórborgirnar London, Amsterdam og París. Fyrir neðan Ísland má hins vegar t.d. finna vinsæla ferðamannastaði eins og Majorka og Flórída. Það kemur e.t.v. ekki á óvart að orð tengd knattspyrnu eru áberandi á listanum en þó skákar Ísland t.d. goðinu David Beckham. Listi Daily Mirror

Áhersla á góða stöðu á leitarvélum
Sem fyrr segir er listinn byggður á niðurstöðum af leitarvélum og gefur hugmynd um hvað það er sem Bretar hafa verið að afla sér upplýsinga um á Netinu. Að sögn Halldórs Arinbjarnarsonar, vefstjóra Ferðamálaráðs, er góð staða á leitarvélum lykilatriði fyrir þá sem vilja vera sýnilegir á Netinu. Þetta á t.d. við um landkynningarvefi Ferðamálaráðs og var töluverð vinna lögð í þann þátt á nýliðnu ári. "Ég hef lagt áherslu á að ná góðum árangri á helstu leitarvélum með orðið "Iceland" og ýmsar samsetningar af því og held að við getum allvel við unað. Google-leitarvélin hefur reyndar borðið höfuð og herðar yfir keppinauta sína og ef þú slærð þar inn orðið Iceland kemur landkynningarvefur Ferðamálaráðs, visiticeland.com sem fram til þessa hefur heitið icetourist.is, upp í 3. sæti. Sama á við um aðrar leitarvélar. Ef þú notar orðið "Iceland" í leit þá eru landkynningarvefir okkar allsstaðar meðal þeirra efstu," segir Halldór.