Fara í efni

„Ísland - allt árið“ heldur áfram næstu tvö árin

Aðstandendur markaðsverkefnisins Ísland - allt árið hafa skrifað undir nýjan samning sem gildir út árið 2016. Stjórnvöld munu leggja til allt að 200 milljónir á ári gegn jafn háu mótframlagi frá samstarfsaðilunum; Icelandair, Landsbankanum, Reykjavíkurborg og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þátttakendur í Ísland - allt árið eru á einu máli um þann ávinning sem verkefnið hefur skilað hingað til og vænta mikils af samstarfinu næstu tvö árin. Verkefnið er einstakt samstarfsverkefni þar sem samkeppnisaðilar vinna að sameiginlegu markmiði og því er mikilvægt að halda áfram þeirri samvinnu og slagkrafti sem verkefnið byggir á.

Ísland - allt árið er markaðsverkefni sem hefur staðið undangengin þrjú ár. Tilgangurinn er að festa ferðaþjónustu í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi af greininni í því augnamiði að hún skapi enn meiri gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.

Helstu markmið með Ísland - allt árið eru að jafna árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu og styrkja viðhorf og vitund gagnvart Íslandi sem heilsársáfangastaðar en fjölgun erlendra ferðamanna yfir vetrarmánuðina er sérstaklega mikilvæg til að nýta betur þær miklu fjárfestingar sem ráðist hefur verið í um allt land. Þá er sérstök áhersla lögð á að auka meðalneyslu ferðamanna ásamt því að kynna Ísland sem vettvang fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Markaðssetningin fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland.

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili verkefnisins.

Aðstandendur ísland allt árið