Into the Glacier 100. þátttakandinn í Vakanum!

Það er okkur sönn ánægja að bjóða Into the Glacier velkomin í hóp þátttakenda í Vakanum en fyrirtækið er 100. fyrirtækið, sem slæst í hópinn! Afhendingin fór fram þann 13. júlí þar sem Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri afhenti Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier viðurkenningarskjalið.

Into the Glacier bíður ferðamönnum einstaka upplifun með ferðum í ísgöng í Langjökli vestanverðum. Göngin voru opnuð fyrir gestum í júní 2015 og hefur gestum fjölgað gríðarlega á þeim tveimur árum rúmum sem liðin eru.

Að sögn Sverris Árnasonar, gæðastjóra Into the Glacier (Ísgöng ehf.), fer starfsemin fram við krefjandi aðstæður og leggja starfsmenn mikið uppúr ábyrgri umgengni við náttúruna. Langtímamarkmið Into the Glacier er að vera leiðandi á sem flestum sviðum í íslenskri ferðaþjónustu og er viðurkenning Vakans mikilvægur áfangi í þeirri vegferð og staðfesting á að þau séu á réttri leið: „ Engum slíkum áfanga væri þó náð án elju og dugnaðar starfsfólks fyrirtækisins. Við leggjumst öll á árarnar til að veita afburða þjónustu á öruggan og ábyrgan hátt, í sátt við umhverfi og samfélag“. 

Starfsmenn Ferðamálastofu óska Into the Glacier innilega til hamingju og þakka þeim jafnframt fyrir að hafa lagt síðustu lóðin á vogarskálarnar til þess að ná þessum merka áfanga í sögu Vakans.


Athugasemdir