Fara í efni

Inspired by Iceland myndbandið sló í gegn

vídeó2
vídeó2

Inspired by Iceland markaðsherferðin, sem hófst fyrir rúmum tveimur vikum, náði nýjum hæðum í gær í átaki innanlands sem bar heitið Þjóðin býður heim. Þar var íslenskur almenningur hvattur til að senda vinum, fjölskyldu og viðskiptafélögum erlendis fjörugt og glettið myndband sem ætlað er að veita fólki innblástur og hvetja til ferðalaga til íslands. Óhætt er að fullyrða að myndbandið hafi slegið í gegn.

Í lok dags í gær höfðu verið send út a.m.k. ein og hálf milljón skilaboða með tölvupósti og af vefsíðunni inspiredbyiceland.com, um fimm milljón Twitter skilaboða voru send en þar vógu þyngst sendingar sem Björk og Yoko Ono áttu heiðurinn af. Auk þess höfðu 870 þúsund manns hlaðið niður myndböndum af Inspired-vefsíðunni, þar af 600 þúsund (þar af 170 þúsund innalands en 500 þúsund að utan) nýja landkynningarmyndbandinu. Að auki hafði Inspired by Iceland Facebook-síðan eignast 17 þúsund vini. Ljóst er að þessi fjöldi mun aukast nú um helgina þegar fleiri og fleiri viðtakendur munu opna póstinn sinn og póstsendingar halda áfram því að umfjöllun um átakið erlendis er að skila sér.

Ljóst er að mikill áhugi er erlendis fyrir átakinu en um það bil 125 mikilvægir bloggarar hafa fjallað um það þ.m.t. Josh Spear sem talinn er ein mikilvægasta röddin á netinu skv. New York Times. Umfjöllun um þjóðarátakið sjálft var síðan birt víða í miðlum í Evrópu, Ástralíu og Bandaríkjunum í gær.

Framundan eru áframhaldandi póstsendingar, birtingar auglýsinga í erlendum blöðum og vefmiðlum, einnig blaðamannaheimsóknir og hvatning til erlendra ferðamanna sem komnir eru til landsins til þess að deila ferðasögum sínum á vefnum ásamt tónlistarviðburði seinna í sumar undir formerkjum Inspired by Iceland.

Aðstandendur átaksins eru að vonum ánægðir með hvernig til tókst og þakka frábærar viðtökur íslensku þjóðarinnar og vonast til þess að fólk haldi áfram að senda þó að þjóðarátaksdeginum sé formlega lokið.

Að markaðsátakinu Inspired by Iceland standa iðnaðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Útflutningsráð, Samtök ferðaþjónustunnar (yfir 70 fyrirtæki), Icelandair og Iceland Express.