Inspired by Iceland framlengt til áramóta

Inspired by Iceland framlengt til áramóta
Inspired mynd

Markaðsátakið Inspired by Iceland í samvinnu ferðaþjónustufyrirtækja, ríkisstjórnar, Reykjavíkurborgar og Íslandsstofu verður haldið áfram til áramóta. Aðilar að átakinust hittust á sameiginlegum vinnufundi í síðustu viku til skrafs og ráðgerða og var talið að það hefði gagnast ferðaþjónustunni og þjóðarbúskapnum vel.

Markaðsátakið hefur notið góðs af hagstæðri gengisþróun ásamt varfærnum samningum í upphafi og því er hægt að framlengja það til áramóta. Vefsíða átaksins verður virk áfram og haldið uppi umfjöllun á samfélagsmiðlum um Ísland sem áfangastað.  Efnt verður til nýrrar auglýsingaherferðar á vefnum í Bretlandi og Bandaríkjunum og ráðstefnu- og hvataferðir til Íslands kynntar sérstaklega á sex markaðssvæðum. Blaðamönnum verður einnig eftir sem áður boðið til Íslands í tengslum við átakið.

Í viðhorfsrannsókn sem gerð var af MMR í þremur löndum, Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku í maí og ágúst voru Danir, Bretar og Þjóðverjar mun jákvæðari í garð Íslands sem áfangastaðar í ágúst en í maímánuði þegar átakið hófst. Þannig voru 24% Dana jákvæðari í garð Íslands sem áfangastaðar í ágúst en í maímánuði, 48% Breta voru jákvæðari og 25% Þjóðverja. Þetta eru góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem um lykilmarkaði er að ræða.

Þegar síðan var spurt hversu líklegt væri að Danir, Bretar og Þjóðverjar myndu ferðast til Íslands í framtíðinni er ljóst að Ísland er í sókn á ný sem áfangastaður. Mun fleiri Danir töldu í ágúst eða 30% fleiri að þeir myndu ferðast til Íslands einhvern tíma í framtíðinni en í maí, 37% fleiri Bretar töldu að líklegt að þeir myndu ferðast til Íslands í ágúst og 32% Þjóðverja.

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð kom svipaður fjöldi ferðamanna til landsins í sumar og í fyrra en það sem af er ári hefur erlendum gestum um Leifsstöð fækkað um 2,5% í samanburði við 2009. Hótel gistinóttum erlendra gesta hefur hins vegar fjölgað um 1% frá áramótum samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Kreditkortavelta hjá erlendum ferðamönnum jókst um nærri tíu prósent umfram verðlagshækkanir fyrstu sjö mánuði ársins.


Athugasemdir