Fara í efni

Icelandair flýgur frá Akureyri næsta sumar

Icelandair
Icelandair

Næsta sumar mun Icelandair bjóða upp á flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðskiptavinir bóka flugið og innrita sig alla leið. Flogið verður allt að fjórum sinnum í viku frá 7. júní til 30. september 2012.

Brottför frá Akureyrarflugvelli verður klukkan 14.30 og lending á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.20. Segir í tilkynningu að þaðan sé hægt að fljúga með tengiflugi til New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Norður-Ameríku og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Ósló í Evrópu.

Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10.  Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50-flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.