Fara í efni

Iceland Travel hlaut virt markaðsverðlaun

Iceland Travel
Iceland Travel

Ferðaskrifstofan Iceland Travel hlaut í síðustu viku virt verðlaun á sviði ferðaþjónustu fyrir besta markaðsframtak ársins á árlegri uppskeruhátíð Seatrade Insider, en það er eitt stærsta fagtímarit heims á sviði skemmtiferðasiglinga.

Í tilkynningu segir að Iceland Travel þjónusti mörg stærstu skipafélög heims á hverju sumri með því að skipuleggja dagsferðir fyrir farþega þeirra skipa sem koma við á Íslandi á hverju sumri.

Markaðsframtakið fólst í endurgerð á laginu "Walking in a Winter Wonderland" sem starfsmenn fyrirtækisins tóku upp og sendu til allra samstarfsaðila, viðskiptavina og tengiliða sinna á síðasta ári. Myndbandið var framleitt innanhúss að öllu leyti og vakti mikla lukku á meðal þeirra skipafélaga sem eru í viðskiptum við Iceland Travel.

Verðlaunin voru afhent í óperuhúsinu í Nice í Frakklandi að viðstöddum öllum helstu áhrifamönnum skemmtiskipaiðnaðarins.

"Þessi verðlaun veita okkur mikinn meðbyr hjálpa okkar fyrirtæki við að markaðssetja Ísland sem áhugaverðan áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Allir þeir sem taka ákvarðanir í þessum bransa voru þarna samankomnir og fengu þannig smjörþefinn af því sem Ísland býður upp á sem áfangastaður. Viðbrögðin sem við höfum fengið í kjölfarið hafa verið mjög jákvæð," segir Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að einfaldleiki myndbandsins hefði verið heillandi, en umfram allt væri það frumlegt og skemmtilegt.