Fara í efni

Iceland Express kynnir áætlun næsta veturs

Iceland Express - ny flugvel
Iceland Express - ny flugvel

Iceland Express hefur kynnt vetraráætlun sína fyrir næsta vetur. Félagið mun fjölga ferðum til London og Varsjá verður nýr vetraráfangastaður félagsins. Aðrir vetraráfangastaðir verða Kaupmannahöfn, Alicante, Berlín og Friedrichshafen.

Í vetur hefur Iceland Express flogið ellefu sinnum í viku til London en fjölgar ferðum í tólf næsta vetur. Þá flýgur flugfélagið í fyrsta sinn til tveggja flugvalla í London; Stansted og Gatwick. Flugið milli Keflavíkur og Stansted verður morgunflug sjö sinnum í viku en Gatwick-flugið verður fimm kvöld í viku. Þannig kemur Iceland Express sérstaklega til móts við þá fjölmörgu viðskiptaferðamenn sem fljúga á þessari leið og geta með þessu móti flogið út að morgni og komið aftur heim að kvöldi alla virka daga, segir í tilkynningu frá Iceland Express. Jafnframt kemur fram að viðtökur við flugi til Varsjár í sumar hafa verið það góðar að ákveðið var að halda fluginu áfram yfir vetrartímann.