Fara í efni

Iceland Express flýgur til Winnipeg

Iceland Express - ny flugvel
Iceland Express - ny flugvel

Iceland Express hyggst hefja áætlunarflug til Winnipeg í Kanada næsta sumar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar segir að flogið verði einu sinni til tvisvar í viku, frá og með júnímánuði. Áfangastaðir flugfélagsins verði þar með orðnir 27 talsins.

Winnipeg er höfuðborg og jafnframt stærsta borg Manitoba í Kanada .  Hátt í 1.300 þúsund manns búa í Manitoba.  Í Winnipeg og nágrenni hennar er mikið af fallegum görðum, svo og mörg stöðuvötn, eins og Lake Winnipeg og Lake Manitoba.  Frá Winnipeg eru svo tengiflug til margra staða í Kanada, í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku.

 Mikill uppgangur hefur verið í Winnipeg undanfarin misseri, þrátt fyrir efnahagslægð víðast annars staðar.  Hagur íbúanna hefur vænkast,  fasteignaverð hækkað og atvinnuleysi er hverfandi.

Um 19 prósent íbúa Manitoba eru af erlendum uppruna.  Í því sambandi má geta þess, að samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er talið, að allt að hálf milljón Ameríkumanna eigi rætur sínar að rekja til Íslands.  Vestur-Íslendingar reka blómleg átthagafélög víða og flest þeirra eru í Manitoba.